Lögreglan telur að morðið í Rauðagerði hafi verið skipulagt og að einhver fjöldi manna hafi komið að því. Tólf hafa réttarstöðu sakbornings í málinu en sjö eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þá eru tveir í farbanni.

„Já við teljum að það hafi verið skipulag í kringum þetta mál og erum að skoða þátt hvers og eins,“ segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að rannsókn málsins miði vel.

Gæsluvarðhald yfir Albananum sem grunaður er um að hafa skotið Armando Beqirai til bana, var framlengt um viku í dag.

Eins og áður hefur verið greint frá fundust um­­­merki um að hleypt hafi verið af skot­vopni á heimili hans.

Tólf með stöðu sakbornings

Nú eru tólf með stöðu sakbornings vegna málsins, hefur lögregla rökstuddan grun um að allt þetta fólk komi að málinu með einhverjum hætti?

Já ég held við höfum það og dómari hefur staðfest það. Við berum náttúrulega þau gögn sem við höfum fyrir dómara með rökstuðningi um af hverju við teljum vera hvern og einn mikilvægan í gæslu með vísan til gagnanna,“ segir Margeir.

„Já við teljum að það hafi verið skipulag í kringum þetta mál og erum að skoða þátt hvers og eins.“

Yfirheyrslur ganga misvel

Mikið af gögnum liggja fyrir í málinu eftir fjölda húsleita, öflun farsímagagna og fleiri sönnunargagna. Aðspurður um vægi farsímagagna nú þegar flestir geti átt samskipti með dulkóðuðum hætti segir Margeir að þótt einstök gögn geti verið lítilvæg ein og sér, styðji allt hvert annað þegar margir þættir eru skoðaðir, bæði gögn og framburðir. Farsímagögnin séu bara eitt púsl í öllu saman.

Aðspurður um framburði sakborninga og hvort þeir þeir séu farnir að tjá sig um málið, verður Margeir tregur til svars. „Það er allur gangur á því. Yfirheyrslurnar eru í gangi og eru misjafnar eins og margir eru í þessu.“

Dánarstund liggur ekki fyrir

Enn liggur ekki fyrir hver dánarstund Armando Beqirai var; hvort hann lést samstundis eða á spítalanum. „Það er ekki komið til okkar nei. Það getur tekið töluverðan tíma að ljúka krufningarskýrslu.“

Armando Beqirai var fæddur árið 1988. Hann var frá Albaníu en búsettur á Íslandi og lætur eftir sig íslenska eiginkonu og eitt barn. Armando starfaði við öryggisgæslu og kom að rekstri fyrirtækisins Top Guard í félagi við nokkra aðra menn. Þeir önnuðust, meðal annars, dyravörslu á skemmtistöðum í Reykjavík.