Líkt og greint var frá í Fréttablaðinu í gær hafa Lyfjastofnun og Embætti landlæknis hafið skoðun á appinu sem Lyfja notar til þess að veita rafrænt umboð. Landlæknir hefur ekki viljað upplýsa um innihald skoðunarinnar en í yfirlýsingu segir að umboðin sem bæði er hægt að veita og nálgast í appinu gildi aðeins í verslunum þess apóteks sem að baki stendur, þá sé öruggast að notast við lausn Heilsuveru við að veita umboð.

Frá því um mánaðamót hefur verið hægt að nálgast umboð vegna afhendingar lyfja rafrænt í gegnum Heilsuveru. Appið fór í loftið nýverið en þar var að finna sams konar umboðslausn, var það óvirkjað fyrir helgi. Guðmundur H. Björnsson, sviðsstjóri stafrænnar þróunar og markaðsmála hjá Lyfju, segir grundvallarmun á umboðunum

„Umboðslausn Heilsuveru er góð en hún krefst þess að fólk þurfi að fara í næsta apótek til að ná í lyfin. Lyfja notar að sjálfsögðu umboðslausn Heilsuveru ef fólk er að ná í lyf fyrir aðra í næsta apótek,“ segir Guðmundur „Umboðslausn Lyfju appsins veitir umboð til að kaupa og veita lyfjum móttöku og þar með getum við til dæmis aðstoðað þann hóp sem sinnir lyfjakaupum fyrir aðstandendur sína á stafrænan hátt alla leið heim að dyrum.“

Haukur Ingason, lyfsali í Garðs Apóteki sem rekið hefur netapótek í rúm þrjú ár, segir það hafa gefist vel að nota kerfi Heilsuveru, allir hafi jafnan aðgang að því og hægt að sjá umboðin um leið og þau séu send.„Þeir eru komnir langt fram úr sér. Samkvæmt reglugerð snýr umboðið einungis að afhendingu á lyfjum. Afhending er þegar viðkomandi kemur og sækir lyfin, afgreiðsla er þegar lyfin eru tekin saman með lyfseðli,“ segir Haukur.

Hákon Steinsson, framkvæmdastjóri Lyfjavers, furðar sig á að Lyfja vilji nota eigin lausn. Vænlegra sé að öll apótek noti umboð frá Heilsuveru. „Ég veit að mjög mikið af fólki veit ekkert í hvaða apóteki það er í, hvort það sé í Apótekaranum, Lyfju eða Lyfjaveri.

Ef öll apótek væru með eigin lausn þá tel ég að það væri einungis til þess fallið að rugla fólk. Við höfum fundið það að mörgum finnst þetta ferli nú þegar vera dálítið vesen þrátt fyrir að tilgangurinn sé að vernda fólk. Það kemur fyrir að í apótek kemur fólk í ójafnvægi og þá getur reynst erfitt að útskýra að umboðið þeirra gildi ekki.“

Hákon vill ekki útiloka að með því vera með eigin lausn sem einungis sé hægt að nota í þeirra apótekum sé Lyfja að reyna að styrkja einokunarstöðu sína.