Toyota-merkið fer mikinn um þessar mundir og bauð bílablaðamönnum á sérstaka ráðstefnu í Amsterdam í síðustu viku til að kynna hvað væri á döfinni hjá þeim á árinu. Ráðstefnan kallast Kenshiki Forum en það er japanska fyrir innsæi eða að auka skilning. Óhætt er að segja að skilningur blaðamanna hafi verið mun meiri eftir að hafa eytt degi á ráðstefnunni en þar var marg nýtt og spennandi upplýst. Má þar nefna framleiðslugerð Mirai-vetnisbílsins sem var frumsýndur þarna, en einnig var RAV4 í tengiltvinnútgáfu Evrópufrumsýndur. Frá Lexus mátti sjá hinn nýja LF-30 framtíðarbíl auk UX 300e sem er fyrsti 100% raf bíll Lexusmerkisins. Loks lék Gazoo Racing stórt hlutverk líka en þeir frumsýndu nýjan GR Yaris og tveggja lítra Supra fyrir Evrópumarkað. Síðast en ekki síst frumkynnti Toyota nýtt merki, Kinto, sem stendur fyrir ferðalausnir hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, allt frá hlaupahjólum upp í heildarlausnum fyrir stórfyrirtæki eða borgir.

Upptak Toyota Supra með tveggja lítra vélinni er 5,2 sekúndur enda bíllinn 100 kg léttari en þriggja lítra útgáfan sem er aðeins 0,8 sekúndum fljótari.

Meðal þess sem að Toyota kynnti á Kenshiki-ráðstefnunni í Amsterdam var ný útgáfa Supra-sportbílsins með tveggja lítra vél. Vélin kemur frá BMW Z4 og er fjögurra strokka með forþjöppu og skilar 258 hestöflum. Upptak þessa bíls er 5,2 sekúndur í hundraðið eða aðeins 0,8 sekúndum minna en í þriggja lítra bílnum, en þessi uppsetning skilar sér í bíl sem er 100 kg léttari. Togið er 400 newtonmetrar og við vélina er átta þrepa ZF sjálfskipting. Það vekur athygli að mengunargildi vélarinnar er aðeins 156 g/km af CO2 sem þýðir að bíllinn ætti ekki að kosta of mikið hérlendis komi til innflutnings á honum. Toyota sýndi bílinn í svokallaðri Fuji Speedway útgáfu sem er hvít með rauðum speglum og svörtum felgum. Sala á bílnum mun hefjast í mars í Evrópu.

RAV4 í tengiltvinnútgáfu hefur lágt mengunargildi uppá 29g/km af CO2 og kemst þar að auki 61 km á hleðslunni einni saman.

Toyota RAV4 er nú á sinni fimmtu kynslóð en segja má að með þessum bíl hafi jepplingshugtakið verið fundið upp. Nýr RAV4 var vinsælasti bíll ársins í fyrra á Íslandi og það sem kaupendum hérlendis gæti þótt spennandi er tengiltvinnútgáfa hans sem kemur til landsins á árinu. „Þar erum við að tala um einn öflugasta bíl sem Toyota býður upp á en hann er rúm 300 hestöfl,“ sagði Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota. „Bíllinn er aðeins 6,2 sekúndur í hundraðið en hann verður kynntur hérlendis seinna á árinu,“ sagði Páll enn fremur. Mun bíllinn nota sömu 2,5 lítra vél og í tvinnbílnum en fá stærri rafhlöðu svo hann kemst 61 km á rafmagninu einu saman.