For­menn nokkurra stjórn­mála­flokka í Ísrael funduðu í dag um stjórnar­myndun en leið­togar flokkanna Yesh Atid og Yamina greindu frá því um helgina að þeir myndu reyna að mynda ríkis­stjórn í sam­einingu til að koma Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, frá völdum.

Yair Lapid, leið­togi stjórnar­and­stöðu­flokksins Yesh Atid, og Naftali Bennett, leið­togi hægri­sinnaða þjóð­ernis­flokksins Yamina, hafa fram til mið­viku­dags til að mynda ríkis­stjórn en eftir fundinn í dag sagði Lapid að „margar hindranir“ stæðu í vegi þeirra.

Segir Netanyahu hafa misst stjórnina

Netanyahu flutti í gær sjón­varps­á­varp þar sem hann for­dæmdi til­raun Lapid og Bennett til stjórnar­myndunar en að hans sögn væri þeirra ríkis­stjórn ógn við þjóðar­öryggi og fram­tíð landsins. Þá sakaði hann Bennett um svik þar sem hann hafði áður sagst ekki ætla að vinna með Lapid.

Lapid svaraði Netanyahu í gær og sagði um­mæli hans til marks um mann sem hefur misst stjórnina á á­standinu. Netanyahu á nú yfir höfði sér á­kærur fyrir spillingu og hefur reynt að ríg­halda í em­bættið sem hann hefur gegnt frá árinu 2009, lengur en nokkur annar for­sætis­ráð­herra í sögu Ísraels.

Gætu átt von á fimmtu kosningunum á rúmum tveimur árum

Ef stjórnar­myndun tekst munu Lapid og Bennett skipta með sér for­ystu ríkis­stjórnarinnar, Bennett myndi gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra fyrstu tvö árin og Lapid næstu tvö. Lapid hefur þegar tryggt sér stuðning nokkura minni flokka en 61 sæti þarf til að tryggja meiri­hluta innan ísraelska þingsins, Knes­set.

Enginn flokkur náði meiri­hluta í þing­kosningunum sem fóru fram þann 23. mars síðast­liðinn en um var að ræða fjórðu þing­kosningarnar á innan við tveimur árum. Reu­ven Rivlin, for­seti Ísrael, veitti Netanyahu fyrst stjórnar­myndunar­um­boð en honum tókst ekki að mynda sam­steypu­stjórn.

Lapid fékk síðan stjórnar­myndunar­um­boð fyrr í mánuðinum, þar sem flokkur hans fékk næst flest at­kvæði í kosningunum í mars, og líkt og áður segir hefur hann fram til fimmtu­dags til að mynda nýja ríkis­stjórn. Gangi það ekki eftir er ekki ó­mögu­legt að fimmtu kosningarnar á tveimur árum blasi við Ísraelum.