Nýjustu gögn virðast benda til þess að ungt fólki stundi minna kynlíf nú en áður. Hvað veldur er mögulega að fólk hafi minni félagsfærni eða samskiptafærni á þessari gervihnattaöld. Jafnvel er ein af ástæðunum einnig sú að fólki standi til meira úrval standi fólki til boða í gegnum samfélagsmiðla og að þetta sé jafnvel form af valkvíða og því að fólk ætli sér að ná því besta sem í boði er og möguleikinn á því að alltaf geti eitthvað betra staðið til boða. En það er víst engin ein ástæða til að útskýra þessa breyttu kynhegðun ungs fólks. Þetta segir Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg, kynfræðingur.

„Kannski gerir unga fólkið meiri kröfur á fullnægjandi kynlíf og sættir sig því ekki við hvað sem er. Það er svo margt sem kemur til greina því tölfræðin er nokkuð ný og fólk áttar sig ekki alveg á því hvers vegna þetta stafar því ástæðurnar eru svo margar. Það má líka skoða hvernig ungt fólk skilgreinir kynlíf, kannski hefur skilgreiningin breyst og tölurnar eru að endurspegla það frekar en minni áhuga á kynlífi,“ segir Sigga Dögg.

„En þetta spilar allt saman, búseta, sambandsform, kynsjúkdómar, menntun, rafræn pressa og samanburður. Ungt fólk í dag er líka líklegra til að vera kvíðið og þunglynt og það getur nánast gert útaf við kynlífið að upplifa slíkar tilfinningar. Þannig að þetta er flókin flétta sem þarf örugglega að skoða nokkuð einstaklingsmiðað.“

Algengara er að fólk sé í óhefðbundnari samböndum líkt og fjarsamböndum eða í sambandi en samt ekki í sambúð og fólk býr lengur í foreldrahúsum meðal annars vegna fasteignaverðs og aukinnar menntunar. Sigga Dögg segir að skilgreiningin á bakvið sambönd hafi því ef til vill breyst.

Aðspurð hvort þetta sé áhyggjuefni ef litið er til lækkandi fæðingartíðni eða fagnaðarefni ef horft er til kynsjúkdóma segir hún það óljóst. „Það fer í raun bara eftir því í hvað er horft. Það er ekki minna um kynsjúkdómasmit heldur virðist það vera upp á við svo þetta er ekki að skila sér þar og þegar kemur að barneignum þá eru aðrir hlutir uppi á teningnum eins og að konur í dag verða ekki að eignast börn heldur mega kjósa að vera barnlausar. Það er frekar nýlegt að samfélagið opni fyrir slíkar hugmyndir.“

Með öllum þeim tækniframförum sem hafa orðið til og tilkomu samfélagsmiðla, hvernig sýnir fólk hvort öðru áhuga?

„Samskiptin byrja yfirleitt rafrænt eða þau geta byrjað á því að rekast á manneskju en fyrsta skref er þá að fletta viðkomandi upp, eða finna á Tinder. Svo er spjallað aðeins þar og svo færir fólk sig yfir á Instagram og fylgist með story hjá hvort öðru þar og líkar við myndir. Svo fer það jafnvel á stefnumót í raunveruleikanum, og ef það gengur vel þá mögulega fer fólk á Messenger á Facebook og heldur áfram í rafrænum samskiptum þangað til það kannski hittist aftur en rafrænt þá virðist Facebook vera oft seinasta vígið,“ segir Sigga Dögg. „En það virðist ekki vera meira um framhjáhöld þrátt fyrir tilkomu samfélagsmiðla. Þessar tölur hafa haldist nokkuð stöðugar en skilgreiningin á framhjáhaldi og sambandsformum er að breytast svo kannski þurfum við að fara að endurskilgreina okkur til að skilja um hvað málið raunverulega snýst.“

Ítarleg umfjöllun um málið í Tilverunni, nýjum fréttakafla í Fréttablaðinu sem kemur út alla fimmtudaga.