Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómasviðs Landspitala, styður tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um styttri einangrunar- og sóttkvíartíma.

Þórólfur sagði í samtali við RÚV í dag að hann væri að setja lokahönd á tillögur sínar til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Helstu breytingar verða að stytta einangrun og sóttkví hjá ákveðnum aðilum, þ.e. börnum og bólusettum. Einangrun gæti farið niður í sjö daga og sóttkví fimm daga.

Már segir þetta í takt við veikindin. „Við erum algjörlega sammála þessum breytingum,“ segir Már í samtali við Fréttablaðið.

„Fyrir börn og yngra fólk er algjörlega viðeigandi en að sjálfsögðu eru einstaklingar inn á milli sem veikjast en tillagan á ekki við um þau,“ segir hann.

Aðspurður um hópsmitanir um helgina segir Már að ekki hafi verið mikið um alvarleg veikindi en samt sem áður sé fjöldinn áhyggjuefni: „Þetta er mikill fjöldi. Allt of mikið og út um allt.“