Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, segir ekkert væri óeðlilegt við samninginn sem Seðlabankinn gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins bankans. Hann segir í samtali við Vísi samninga af sama meiði oft hafa verið gerða hjá bankanum og nokkrir þeirra hafi verið gerðir í hans tíð sem seðlabankastjóri.

Á hálfum forstjóralaunum í námi

Samningurinn sem var gerður við Ingibjörgu var upp á rúmar 18 milljónir króna. Hann var í byrjun árs aðeins munnlegur milli Más og Ingibjargar. Samningurinn var svo skjalfestur vorið 2016. Í honum kemur fram að Ingibjörg hafi fengið alls 8 milljónir króna í námsstyrk við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og 60 prósent hlutfall af mánaðarlaunum í tólf mánuði. Hún var þá með um 1,4 milljónir í mánaðarlaun, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, og gera greiðslurnar því alls 18 milljónir.

Fréttablaðið greindi frá því í sumar að stjórnendur Seðlabankans hafi beitt hinum ýmsu ráðum til að halda í starfsfólk gjaldeyriseftirlitsins á árunum eftir að það var sett á fót í september 2009, sem var ráðið inn í sérhæfð og tímabundin verkefni.

Upphaflega var óskað eftir afhendingu samningsins í nóvember í fyrra en því neitaði Seðlabankinn. Í sumar komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að Seðlabankanum bæri að afhenda samninginn. Þá greip bankinn til þess ráðs að stefna blaðamanni Fréttablaðsins fyrir Héraðsdóm Reykjaness til að fá úrskurðinn ógildan. Í greinargerð lögmanns Seðlabankans, sem Fréttablaðið fjallaði um í sumar, kom fram að birting samningsins gæti komið í veg fyrir að fleiri slíkir samningar yrðu gerðir. Héraðsdómur hafnaði beiðni Seðlabankans á föstudag. Á þriðjudag var samingurinn afhentur Fréttablaðinu.

„Það er ekkert óeðlilegt við þetta, þetta er hluti af eðlilegri mannauðsstjórnun og því að tryggja bankanum hæft starfsfólk, þannig að hann sé með nógu hæft og gott lið til að tala við útlendinga og svoleiðis. Þetta er ekkert nýtt,“ segir Már. Samningurinn hafi vissulega verið frábrugðin hinum að því leyti að Ingibjörg hafi verið framkvæmdastjóri á þeim tíma þegar samið var við hana. Því hafi greiðslurnar orðið hærri en ella.

„Þetta er held ég sá samningur sem er hæstur, allavega af eins árs samningunum, en auðvitað voru sumir samningarnir sem höfðu komið áður, fyrr á árum, til lengri tíma en það,“ segir hann.

Sér ekki eftir samningnum

Hann segist, eftir á að hyggja, hafa tekið rétta ákvörðun með gerð samningsins. Ingibjörg lét fljótlega af störfum eftir námið því henni bauðst starf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

„Þá held ég að sé alveg ótvírætt hægt að segja að Ingibjörg hafi leikið algjöran stjörnuleik. Hafi ég haft efasemdir um þennan gjörning þegar hann var gerður þá hafði ég engar efasemdir um að þetta hafi verið góður gjörningur fyrir bankann og land og þjóð eftir á,“ segir Már. „Til dæmis má nefna að hún, ásamt Steinari Guðgeirssyni, björguðu milljörðum, og jafnvel tugum milljarða fyrir íslenskt þjóðarbú þegar verið var að ganga frá stöðugleikaframlögunum.“