Fjögurra ára fangelsisdómi konu sem sakfelld var fyrir mansal á þremur stjúpbörnum sínum í Héraðsdómi Reykjaness í apríl var snúið við í Landsrétti á föstudag.
Konan var sakfelld í héraði fyrir að hafa neytt þrjú stjúpbörn sín til nauðungarvinnu og var það í fyrsta sinn í rúman áratug þar sem sakfellt var fyrir mansal.
Henni var jafnframt gert að greiða stjúpbörnum sínum samanlagt um 22 milljónir króna. Landsréttur sýknaði konuna af öllum ákærum og einkaréttakröfum stjúpbarna hennar.
Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að konunni hafi meðal annars verið gefið að sök að hafa misnotað stjúpbörn sín þrjú á tímabilinu apríl 2018 til nóvember 2020, þá á barnsaldri, til nauðungarvinnu fyrir fyrirtæki í hennar verkstjórn.
Konan var gift föður þeirra á samkvæmt ákæru að hafa útvegað þeim dvalarleyfi hér á landi, flutt þau til landsins, hýst þau og útvegað þeim vinnu.
Börnin hafi verið látin vinna að allt þrettán klukkustundir á dag, sex til sjö daga vikunnar, og að konan hafi nýtt laun þeirra sem námu rúmlega sextán milljónum króna að mestu í eigin þágu.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að konan hafi flutt börnin til Íslands í þeim tilgangi að misnota þau til vinnu. Þá hafi ekki annað komið fram í málinu en að ákvörðun konunnar og eiginmanns hennar um að flytja til Íslands með börn sín hafi verið grundvölluð á því að högum fjölskyldunnar yrði betur borgið hér.
Þá metur Landsréttur svo að óvissa sé uppi um vinnutíma barnanna. Margt bendi til ofskráningu vinnustunda.
Í dómi Landsréttar kemur jafnframt fram að börnin hafi unnið mikinn hluta þess tíma sem ákæran tekur til og að fyrir liggi að launum barnanna hafi verið ráðstafað til byggingar íbúðarhúss í heimalandi fjölskyldunnar.
„Um þann þátt málsins er í ljós leitt að ákærða og eiginmaður hennar, faðir brotaþola, tóku sameiginlega ákvörðun um að húsið skyldi byggt og hvernig það yrði fjármagnað. Þá var út frá því gengið að þau yrðu bæði eigendur hússins,“ segir dóminum og að ekki sé hægt að slá því á föstu að það muni ekki ganga eftir. Samkvæmt vitnisburði föðurins hafi íbúðarhús verið reist á umræddri lóð.