Fimm létust eftir krana­slys í bænum Kelowna í Bresku Kólumbíu, Kanada, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar. Kraninn var staðsettur ofan á blokk og féll á byggingarsvæðið fyrir neðan.

Fjórir sem létust voru byggingarverktakar og talið er að stjórnandi kranans sé þar að auki grafinn undir rústunum.

Bygginga­kraninn féll á skrif­stofu­blokk og heimili aldraðra klukkan 10:45 á staðar­tíma á mánudagsmorgun, segir í frétt hjá kanadísku frétta­stofunni CBC.

Svæðið í kringum slysið var rýmt á meðan að rann­sókn stendur yfir. Truflun varð á raf­magni til mið­bæjar Kelowna í kjöl­far slysins og allri um­ferð var stýrt frá svæðinu. Búið er að lýsa yfir neyðar­á­standi á svæðinu sem verður í gildi í sjö daga.