Samkvæmt nýsjálensku lögreglunni eru minnst fimm látnir og nokkurs fjölda er saknað. Lögreglan segir að 23 hafi verið bjargað en varaði við því að tala látinna sé líkleg til að hætta, þar sem ferðamenn voru að heimsækja eldfjallið þegar það gaus. Svæðið er of hættulegt fyrir björgunaraðgerðir eins og er. Þetta kemur fram á vef BBC.

White Island, sem er einnig þekkt sem Whakaari, er eitt af virkustu eldfjöllum Nýja-Sjálands, en eyjan er í einkaeigu og fjöldi ferðamanna fer þangað í skoðunarferðir á hverjum degi.

Gosið hófst rúmlega eitt í nótt að íslenskum tíma, en þá var klukkan rétt rúmlega tvö um daginn á Nýja-Sjálandi.

Bein útsending frá eldfjallinu sýndi hóp gesta innan í gígnum áður en allt varð svart.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði að nokkur fjöldi ferðamanna hefði verið á eða við eyjuna, bæði innfæddir og erlendir. Hún sagði að lögregla væri að sinna björgunaraðgerðum en að öskufall gerði það erfitt að komast að eyjunni.

Lögregla sagði í fyrstu að það hefðu verið 100 manns á eða við eyjuna, en tölunni var fljótlega breytt í 50.

Eldfjallið hefur gosið nokkrum sinnum síðustu ár, síðast árið 2016, en þá meiddist enginn.

Ekki er talið að eldgosið hafi áhrif á Norðurey Nýja-Sjálands.