Mannskæðir skógareldar í norðanverðu Kaliforníuríki hafa valdið miklum skemmdum og mannfalli. Að minnsta kosti fimm eru látnir vegna eldanna. Hundruð herlögreglumanna vinna nú að því að koma fólki í öruggt skjól. Meðal þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sín eru Kim Kardashian og Kanye West.

Fimm orðið eldunum að bráð

Yfir 175.000 hafa þurft að leggja á flótta frá heimili sínum undan eldunum sem breiðist hratt út. Samkvæmt The Guardian eru að minnsta kosti fimm látnir en hin látnu hafa öll fundist í bílum sínum nærri bænum Paradise, norðaustur af San Fransisco þar sem eldurinn hefur breiðst hratt út. Hluti þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sínu búa á svæði sem enn er að sleikja sárin eftir skotárás á barnum Boarderline bar and grill á fimmtudaginn.

Í raun er um að ræða tvo skógarelda, annar geisar vestan við Los Angeles og hinn norðar, nærri borginni Sacramento. Báðir eldarnir breiðast hratt út sökum þess hve hvasst er á svæðinu og eru sagðir vera á suðurleið. 

Kim og Kanye höfðu klukkustund til að flýja

Fjöldi þekktra einstaklinga búa á svæðum nærri eldunum og hafa einhverjar stjörnur látið vita af sér á samfélagsmiðlum. Meðal íbúa á svæðinu Calabasas er raunveruleikastjarnan og athafnakonan Kim Kardashian, sem býr þar ásamt eiginmanni sínum Kanye West og þremur börnum. Kardashian birti fyrir stuttu mynd á Instagram-aðgangi sínum þar sem hún bað fólk um að biðja fyrir Calabasas.

„Biðjið fyrir Calabasas. Ég var að lenda heima og hafði klukkutíma til að pakka og yfirgefa heimilið. Ég bið fyrir því að allir séu öryggir,“ skrifaði Kardashian.

Þá birti hún myndir af eldinum og þakkaði slökkviliðsmönnum fyrir störf sín.