Forsætisráðherra verður frummælandi í sérstakri umræðu á Alþingi á mánudaginn um valdheimildir heilbrigðisráðherra samkvæmt sóttvarnalögum með hliðsjón af mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum.

Töluverð umræða hefur verið í samfélaginu um þörf fyrir aðkomu kjörinna fulltrúa á Alþingi að sóttvarnaaðgerðum og takmörkunum á réttindum borgaranna vegna þeirra.

Þingið svaraði ekki erindi forsætisráðherra

„Ég bauð þinginu í síðustu viku að ég eða heilbrigðisráðherra flyttum þinginu skýrslu um álitsgerð Páls Hreinssonar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og vísar til álitsgerðar Páls Hreinssonar prófessors og dómara við EFTA dómstólinn, sem birt var á vef stjórnarráðsins í lok síðasta mánaðar. Álitsgerðin var unnin að beiðni forsætisráðherra og fjallar um heimildir ráðherra á grundvelli sóttvarnarlaga með hliðsjón af reglum stjórnsýsluréttarins og mannréttindaákvæðum.

Katrín segir að boði hennar til þingsins hafi ekki verið svarað fyrr en hún hafði orð á því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á mánudaginn. Þá hafi komið vöflur á starfslið þingins sem kannaðist ekki við erindi frá forsætisráðherra.

Erindið fór með bréfapósti til þingsins og týndist

Við eftirgrennslan kom í ljós að erindið, sem var sent með bréfapósti frá stjórnarráðinu til þingsins, hafði týnst í þinginu og ekki fengið neina afgreiðslu, en boðleiðir virðast hafa riðlast vegna fjarvinnu fjölda starfsmanna þingsins í samræmi við sóttvarnaráðstafanir.


Þingið hefur nú þekkst boð forsætisráðherra um umræðu í þinginu um þetta málefni sem brennur á mörgum og fer umræðan fram á mánudaginn.