Rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun að íslenskum tíma var geimfarinu Artemis-1 skotið á loft frá Canaveral-höfða í Flórída og er þetta fyrsta geimskotið af þremur sem NASA hefur skipulagt fyrir næstu þrjú árin í Artemis-áætluninni.

Eldflaugin flutti með sér ómannaða geimhylkið Óríon og um borð sitja þrjár gínur sem hafa það verkefni að skynja og mæla lífsmörk fyrir framtíðargeimfara.

Geimfarið mun fljúga hring um sporbaug tunglsins áður en það snýr aftur til jarðar. Áætlað er að geimfarið muni lenda í Kyrrahafinu skammt frá San Diego að loknu 25 daga ferðalagi sínu þann 11. desember.

Artemis-áætlunin er nefnd eftir Artemis, gyðju tunglsins sem var tilbeðin í Grikklandi hinu forna. Geimskotið átti upprunalega að eiga sér stað í ágúst en miklar tafir urðu á verkefninu þegar upp komst um eldsneytisleka.

Svipað vandamál hrjáði svo verkefnið á ný þegar seinna flugtakið átti að fara fram snemma í september.

Fréttablaðið/Graphic News

Um borð í geimfarinu eru einnig ýmsir skynjarar sem munu mæla titring, hröðun og geislun innanborðs í hylkinu.

Markmiðið er að meta hvernig Óríon-geimhylkið muni standa sig árið 2024 þegar Artemis-2 ferjar sína fyrstu áhöfn á sporbraut um tunglið.

Ári seinna mun Artemis-3 lenda mönnuðu geimfari á yfirborð tunglsins í fyrsta sinn síðan 1972.

Fyrsta tungllendingin átti sér stað árið 1969 og geimfararnir Neil Armstron og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna á yfirborð tunglsins.

Geimkapphlaupið á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hafði þá staðið yfir í meira en áratug og kepptust þessi tvö voldugustu ríki jarðar um yfirburði í könnun geimsins.

Áhugi á geimrannsóknum fór dvínandi með tímanum. Þegar kalda stríðið byrjaði að fjara út breyttu stjórnvöld um stefnu og juku sparnað.

Artemis-áætlunin mun ekki aðeins koma mannkyninu aftur til tunglsins, heldur markar áætlunin mikil tímamót í sögu geimferða. Space Launch System eldflaugin sem bar Artemis-1 út í geim er öflugasta eldflaug sögunnar og mun áætlunin einnig ferja fyrsta kvenkyns geimfara sem mun ganga á tunglinu.