Chelsea Manning, uppljóstrari og fyrrverandi hermaður, hefur verið dæmd í fangelsi fyrir að neita að bera vitni í rannsókn sem beinist að fréttamiðlinum Wikileaks. Hún var dæmd í 35 ára fangelsi fyrir uppljóstranir sínar árið 2010, en hún lak leynilegum gögnum sem snéru að margskonar afglöpum Bandaríkjahers í Írak til Wikileaks.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í ár að bandarísk yfirvöld væru að bjóða að minnsta kosti einum einstaklingi, sem búsettur er á Íslandi, friðhelgi frá saksókn gegn því að bera vitni gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Aukin harka er að færast í rannsókn bandaríska yfirvalda.

Manning mætti fús fyrir dóminn en sagðist ekki ætla bera vitni í málinu og að hún myndi sætta sig við refsingu sem dómarinn teldi hæfilega. Sagðist hún jafnframt hafa veitt allar upplýsingar sem hún gæti þegar réttað var yfir henni á sínum tíma. Hún verður í haldi þar til hún ákveður að bera vitni eða kviðdómur, sem hefur það hlutverk að meta málatilbúnað ákæruvaldsins, lýkur störfum.

Árið 2010 var Manning handtekin og ákærð fyrir að hafa lekið þúsundum gagna. Var hún dæmd í 35 ára fangelsi eftir átta vikna löng réttarhöld fyrir herdómstól. Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, mildaði dóminn árið 2017 og var hún þá laus úr haldi.

CNN greinir frá.