Slagsmál brutust út í göngugötunni á Akureyri fyrr í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóra er enn verið að ná utan um aðstæður á vettvangi en varðstjóri hefur ekki svarað í símann vegna anna.
Af myndum á vettvangi má sjá alblóðugan mann leiddan í lögreglubíl í járnum og mikinn viðbúnað á vettvangi en að sögn sjónarvotta virtist nokkur hópur manna hafa tekist á.
Sýndist sjónarvottum sem Fréttablaðið ræddi við manni hafa verið hent í gegnum rúðu á kaffihúsinu Bláu Könnunni. Starfsmaður þar var að sópa upp glerbrot þegar Fréttablaðið hafði samband en vildi ekki tjá sig frekar um atvikið.
Gríðarlegur fjöldi ferðamanna er nú á Akureyri enda veður þar með besta móti. Lögreglu hefur almennt gengið vel að eiga við mannfjöldann og ekki mikið verið um ólæti hingað til.
Samkvæmt upplýsingum frá mbl.is eru sex í varðhaldi eftir slagsmálin sem brutust út um níuleytið í kvöld. Einn hefur verið fluttur á sjúkrahús.
Sjónarvottar sem ræddu við mbl.is telja að slagsmálin hafa byrjað innandyra og þróuðust með þeim hætti að stokkið var á hinn slasaða. Hann hafi lenti á rúðu staðarins með þeim afleiðingum að hún brotnaði og hann hlaut alvarleg meiðsl á handleggi. Mikið blóð var á vettvangi og ástandið ískyggilegt að sögn vitnisins.
Fréttin hefur verið uppfærð


