Joe Biden Bandaríkjaforseti fyrirskipaði í gær sína fyrstu hernaðaðaraðgerð frá því hann tók við embætti 20. janúar. Gerð var loftárás gegn uppreisnarhópum, sem Bandaríkjamenn fullyrða að tengist Íran, í Sýrlandi. Í það minnsta einn féll og nokkrir særðust í árásinni á byggingar í austurhluta Sýrlands, nærri landamærunum að Írak, að sögn Wall Street Journal.
Heimildarmaður Washington Post, sem vildi ekki láta nafns síns getið, fullyrti að fleiri en einn hefði fallið í loftárásunum. Samkvæmt Reuters hafa sýrlenskir ríkismiðlar staðfest að árásin hafi verið gerð og 17 hafi fallið. Þeir fullyrða að árásin hafi verið gerð á meðan stjórnarherinn stóð í aðgerðum gegn samtökum sem kenna sig við íslamskt ríki.
Árásin líkleg til að valda frekari ófriði
Sýrlenskir ríkismiðlar vitna í ónefndan heimildarmann í Rússlandi, bandamanna sýrlenskra yfirvalda, sem lýsti loftárásunum sem „ólögmætum.“ Þær væru til þess fallnar að auka líkurnar á „umfangsmeiri átökum.“
„Ég er sannfærður um að við höfum hæft þau skotmörk sem við ætluðum okkur að hæfa. Við gerðum þetta að vel ígrunduðu máli eins og búast má við af okkur. Við leyfðum Írökum og hvöttum þá til að afla upplýsinga sem var afar gagnlegt við að skilgreina skotmörkin,“ sagði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, við blaðamenn í gær skömmu eftir loftárásirnar samkvæmt AP. Loftárásirnar hafi verið gerðar í fullu samráði við bandalagsþjóðir.

Austin sagði enn fremur að að stjórn forsetans væri með loftárásunum að senda skýrt merki um að Biden muni grípa til aðgerða til að tryggja öryggi Bandaríkjamanna og bandamanna á svæðinu. Talið er að þessum skilaboðum sé beint til yfirvalda í Tehran. Beitt verði hnitmiðuðum hernaðaraðgerðum gegn hópum sem Bandaríkin telji gangi erinda þeirra. Mannréttindasamtök sem fylgjast með átökunum í Sýrlandi fullyrða 22 hafi fallið í árásinni og að flutningabílar hlaðnir vopnum hafi einnig verið sprengdir í loft upp. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest.

Samtökin sem ráðist var gegn kallast Kataib Hezbollah og Kataib Sayyid al-Shuhada. Þau tengjast stjórnvöldum í Íran, Sýrlandi og Hezbollah-samtökunum í Líbanon að sögn John Kirby, talsmanns bandaríska varnarmálaráðuneytisins.
Árásin eyðilagði nokkrar byggingar sem notaðar voru af samtökunum tveimur, meðal annars vopnageymslu, samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs. Þetta eru ekki fyrstu loftárásirnar sem Bandaríkjamenn gera gegn Kataib Hezbollah sem þau saka um að bera ábyrgð á fjölda árása á bandaríska hermenn og gegn bandarískum hagsmunum í Írak.
Samtökin tvö hafa barist með stjórnarher sýrlenska forsetans Bashar al-Assad í borgarastríðinu í landinu. Talið er að allt að milli 400 til 600 þúsund manns hafi fallið í borgarastríðinu síðan það hófst fyrir tæpum 10 árum. Talið er að um 7,6 milljónir séu að flótta innan landsins og meira en fimm milljónir flúið landið, flestir til Líbanon.

Kataib Hezbollah hafa líka gert árásir á bandaríska herinn í Írak, meðal annars fyrr í mánuðinum í nágrenni borgarinnar Erbil í norðurhluta Írak. Þá féll einn filippseyskur verktaki á vegum bandaríska hersins og nokkrir hermenn særðust bæði úr röðum Bandaríkjamanna og bandalagsríkja. Loftárásin í gær var svar fyrir árásirnar að sögn varnarmálaráðuneytisins og hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma samkvæmt Wall Street Journal.

Biden ræddi við Mustafa Al-Kadhimi, forsætisráðherra Írak, í síma á þriðjudaginn áður en loftárásirnar voru gerðar. Í yfirlýsingu Hvíta hússins eftir samtalið sagði að þeir hefðu verið sammála um að „þeir sem bæru ábyrgð á slíkum árásum skyldu gjalda fyrir það.“ Forsetinn undirstrikaði einnig í símtalinu að Bandaríkin myndu áfram styðja við fullveldi og sjálfstæði Írak.
