Ísraelar skutu fleiri flug­skeytum að Gaza í morgun en að sögn heil­brigðis­yfir­valda létust 26 Palestínu­menn, þar af átta börn, í loft­á­rásum snemma í morgun. Hernaðar­menn skutu í kjöl­farið flug­skeytum að Ísrael á móti en á­tökin milli Ísraels­her og Palestínu hafa nú staðið yfir í viku.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið hafa nú 174 Palestínu­menn látist á Gaza, þar af 47 börn, en í Ísrael hafa 10 látist, þar af tvö börn. Þá hafa að minnsta kosti tólf Palestínu­menn verið myrtir á Vestur­bakkanum.

„Þetta eru augna­blik skelfingar sem enginn getur lýst. Eins og jarð­skjálfti hafi orðið á svæðinu,“ sagði einn Palestínu­maður sem sér um björgunar­að­gerðir í rústunum. Flug­skeytum var meðal annars skotið á heimili Yehya Al-Sinwar á suður­strönd Gaza en hann er yfir stjórn­mála- og hernaðar­starfi Hamas.

Stanslausar árásir í viku

Líkt og áður segir hafa á­tökin nú staðið yfir í viku en víða um heim kom fólk saman til að mót­mæla fram­göngu Ísraels­her í garð Palestínu­manna. Þegar til stóð að halda Jerúsalem­daginn há­tíð­legan síðast­liðinn mánu­dag var allt á suðu­punkti og skutu Ísraelar og Palestína á hvort annað til skiptis.

Í gær héldu loft­á­rásirnar á­fram en Ísraels­her skaut meðal annars á fjöl­miðla­hús­næði í Al-Jalaa turninum í Gaza þar sem skrif­stofur fjöl­miðla á borð við Al Jazeera og AP voru til húsa. Ísraelar sögðu liðs­menn Hamas sam­takanna dvelja í turninum en færðu engar sannanir fyrir því.

Alþjóðasamfélagið bregst við

Antonio Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, gaf í kjöl­farið út yfir­lýsingu þar sem hann á­minnti bæði Ísraela og Palestínu­menn að á­rásir á hvers kyns í­búða­byggðir og fjöl­miðla­byggingar væri brot á al­þjóða­lögum og að slíkt ætti að forðast eftir fremsta megni.

Ísraelar og Hamas hafa gefið það út að þau muni hætta en Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, sagði í sjón­varps­á­varpi í gær að Ísraelar væru enn í „miðri að­gerð,“ og þau myndu halda á­fram eins lengi og þörf væri á.

Sendi­herra Banda­ríkjanna, Hady Amr, fundaði í gær með Netanyahu og Mahmoud Abbas, for­seta Palestínu, auk þess sem Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi sjálfur við þá, en Banda­ríkja­menn hafa lítið vilja skerast í leikinn. Öryggis­ráð Sam­einuðu þjóðanna mun koma saman síðar í dag til að koma í veg fyrir að á­standið stig­magnist enn frekar.