Allar ferðir falla niður á leið 31 hjá Strætó í dag og einn vagn fellur niður fyrir há­degi á leið 19. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fyrir­tækinu en á­stæðan er sögð vera mann­ekla vegna Covid-smits.

Smitin komu upp hjá Hag­vögnum hf. sem er annar verk­takanna sem ekur fyrir Strætó á höfuð­borgar­svæðinu. Tveir starfs­menn eru smitaðir sam­kvæmt upp­lýsingum frá því í morgun og fimm vagn­stjórar voru sendir í sótt­kví í kjöl­farið.

Að sögn Guðmundar Heiðar Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó, er óljóst hvaða áhrif þetta hefur í framhaldi því auk þess að missa sjö vagnstjóra þá eru margir í sumarleyfi sem erfitt er að kalla aftur inn.

„Það er ekki búist við því að þetta hafi áhrif um helgina því ferðirnar eru færri, en við munum fylgjast grannt með næstu daga,“ segir Guðmundur Heiðar.

Að sögn smitrakningateymis þurfa farþegar ekki að hafa áhyggjur vegna þess að þau eru ekki í návígi við bílstjórana í lengri tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð og leiðrétt. Fyrst stóð að allar ferðir leiðar 19 falli niður en það er ekki rétt.