Maðurinn sem lést á Ólafsfirði í nótt var íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri. Í dag hefur Fréttablaðið rætt við bæjarbúa sem segja að maðurinn sem lét lífið hafi verið gestkomandi í húsinu sem er vettvangur málsins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tengist hinn látni þeim fjórum sem eru í haldi lögreglu og með réttarstöðu sakbornings í málinu.

Af því að dæma sem bæjarbúar hafa sagt átti málið sér mögulega einhvern aðdraganda, en samkvæmt þeim höfðu verið einhverjar væringar innan hópsins.

Lögreglan greindi frá málinu í morgun í tilkynningu, en þar kom fram að hún hefði verið kölluð út klukkan 2:34 í nótt þar sem maður hafði verið stunginn með eggvopni.

Lögreglumenn og sérsveitarmenn frá Akureyri hafi haldið á staðinn og lögreglumenn á bakvakt á Tröllaskaga voru einnig ræstir út. Fram kemur að þegar fyrstu lögreglumenn komu á vettvang, voru endurlífgunartilraunir hafnar á manninum sem var með áverka. Læknir og sjúkraflutningamenn komu einnig á vettvang en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.

Líkt og áður segir hafa fjórir einstaklingar verið handteknir vegna málsins og eru þeir allir með réttarstöðu sakbornings. Í tilkynningu lögreglunnar í morgun sagði að enginn væri eftirlýstur vegna málsins að svo stöddu.

„Við erum harmi slegin öll sem eitt,“ sagði Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, um málið í samtali við Fréttablaðið í dag. „Í litlu bæjarfélagi sem þessu snertir þetta alla.“ sagði hún jafnframt.