Mál Vals Lýðssonar, sem grunaður er um að hafa orðið bróður sínum að bana á bænum Gýgjarhóli um síðastliðna páska, er nú komið til héraðssaksóknara. Það staðfesti Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, í samtali við RÚV. Frestur til að gefa út ákæru rennur út þann 23. júní og hún segir í að hún vonist til að það verði gert sem fyrst.

Valur var handtekinn á vettvangi eftir að hann hringdi sjálfur á lögreglu og tilkynnti um andlát bróður síns þann 31. mars síðastliðinn. Í símtalinu lýsti hann því hvernig komið hafi til átaka á milli bræðranna eftir drykkju. 

Minni mannsins af átökum kvöldsins var þó óljós en sagði hann bróður sinn hafa orðið brjálaðan, þeir hafi tekist á, en síðan hafi rjátlað af hinum látna. „Í minningu sinni væri kærði ekki sökudólgurinn, hann talið að greiðst hefðu úr þessu um nóttina en fljótt á litið væri hann bara morðingi,“ segir í úrskurði Landsréttar. 

Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn.

Sjá einnig: Tók á móti lögreglu með blóðslettur á andliti og hendi