Gestur K. Pálma­son, eigin­maður Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðings lögreglunnar á Suðurnesjum, sótti um stöðu yfir­lög­reglu­þjóns á Kefla­víkur­flug­velli vorið 2019. Helgi Þ. Kristjáns­son, mann­auðs­stjóri lög­reglunnar á Suður­nesjum, sem er núna í veikinda­leyfi á­samt Öldu í mót­mæla­skyni, sá m.a. um hæfnis­matið í ráðningar­ferlinu.

Rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum sendi yfirstjórn embættisins nýlega bréf þar sem hann telur að skoða þurfi ráðningarferla hjá embættinu. Hann telur meðal annars Öldu Hrönn hafa haft óréttmæt áhrif á umsókn hans um starf yfirlögregluþjóns árið 2018. Í bréfunum sem Helgi m.a. sagður „veru­lega vil­hallur“ við Öldu Hrönn.

Í hæfnis­matinu frá 2019, sem Frétta­blaðið hefur undir höndum, fær Gestur, sem er þá lög­reglu­full­trúi, 94,63 stig af 100 mögu­legum.

Meðal þriggja efstu umsækjenda var Hall­dór Rós­mundur Guð­jóns­son, lög­lærður full­trúi lög­reglu­stjóra og Sigurgeir Ómar Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Hall­dór hóf störf hjá lög­reglunni á Kefla­víkur­flug­velli árið 1987 og hefur yfir 30 ára starfs­reynslu hjá lög­reglunni.

Á meðan að um­sóknar­ferlið var í gangi var Hall­dóri sagt upp störfum hjá lög­reglunni á Suður­nesjum en ríkis­lög­maður hefur viður­kennt bætur vegna ó­lög­mætrar upp­sagnar. Hall­dór kvartaði einnig til fagráðs vegna ein­eltis af hálfu Öldu Hrannar eftir upp­sögnina. Niður­­­staða fagráðs var að ekki væri um ein­elti að ræða.

Ingi­björg Hall­­dórs­dóttir, lög­­maður Hall­dórs í upp­sagnar­ferlinu, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þau hafi verið ó­­­sam­­mála niður­­­stöðu fagráðs. „Upp­­­sögninni var harð­­lega mót­­mælt sem ó­­lög­­mætri og þá var vakinn at­hygli ráðu­neytisins á þessu máli og jafn­­framt vanda­­málum innan em­bættisins,“ sagði Ingi­björg við Frétta­blaðið í lok julí. Bóta­mál Hall­dórs er nú í ferli.

Sam­kvæmt við­tölum Frétta­blaðsins við fyrr­verandi og nú­verandi starfs­menn hjá lög­reglunnni á Suður­nesjum er hæfnis­matið sem fram fór talið afar sér­stakt. Þykir það at­hyglis­vert að Hall­dóri, sem var mjög hæfur á pappírum, hafi verið „bolað út úr“ em­bættinu á sama tíma og ráðningar­ferlið var í gangi.

Markþjálfun og lögfræðimenntun metin til jafns

Það vekur at­hygli í hæfnis­matinu að mark­þjálfun Gests frá Opna Há­skólanum er metin til jafns við lög­fræði- og mann­auðs­stjóra­menntun Hall­dórs frá Há­skóla Ís­lands. Gestur var einnig eitt ár í námi í hag­fræði, heim­speki og stjórn­mála­fræði við Há­skólann á Bif­röst og lauk svo einni önn í lög­reglu­fræðum við Há­skólann á Akur­eyri.

Hall­dór hafði lokið grunn- og meistara­námi í lög­fræði frá Há­skóla Ís­lands á­samt fjögurra anna mann­auðs­stjórnunar­námi frá Endur­menntun HÍ. Hann stundaði á þeim tíma einnig meistara­nám í rann­sóknum frá Politi­hög­skolen í Noregi.

Hall­dór og Gestur fá hins vegar báðir 4,83 af 5 mögu­legum þegar kemur að menntun í matinu. Gestur fær hins vegar fleiri stig í öllu hug­lægu mati.

Það vekur einnig at­hygli að þrátt fyrir nær full­komið hæfnis­mat Gests á­kvað Ólafur Helgi Kjartans­son, lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum, að virða hæfnis­matið að vettugi en lög­reglu­stjóri er ekki bundinn við hæfnis­matið.

Sigur­geir Ómar Sig­munds­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn, sem fékk 86,81 af 100 mögu­legum var ráðinn í stöðuna 1. júní 2019.

Hall­dóri Rós­mundi var sagt upp störfum daginn áður, 31. maí 2019.

Á heima­síðu Gests sem mark­þjálfi getur hann niður­stöðu um­sóknar­ferlisins, en þar skrifar hann á ensku að „hann hafi verið metinn hæfastur í æðstu stöðu innan ís­lensku lög­reglunnar“ áður en hann hætti þar störfum.

Gestur kom aftur til starfa hjá lög­reglunni á Suður­nesjum í byrjun sumars 2020 en fór þremur dögum seinna í sumar­leyfi. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er hann í launa­lausu leyfi til 1. októ­ber með mögu­leika á fram­lengingu til 4. janúar 2021. Hvorki hann né Alda hafa því verið í störfum hjá em­bættinu síðan í byrjun sumars.

Ekki náðist í Helga Þ. Kristjánsson, mannauðstjóra lögreglunnar á Suðurnesjum, við vinnslu fréttarinnar.