Mannanafnanefnd hefur birt úrskurði sína frá september til lok desember um íslensk mannanöfn. Tuttugu og eitt nafn var samþykkt og ellefu var hafnað. Nefndin samþykkti að þessu sinni tvö kynhlutlaus nöfn.

Beiðni um kvenkyns eiginnöfnin Melasól, Lárenzína, Sófía, Ivý, Mylla og Sólheiður var samþykkt ásamt móðurkenningunni Evudóttir. Beiðni um kynhlutlausu eiginnöfnin Frost og Regn var einnig samþykkt og nöfnin færð í mannanafnaskrá. Nefndin samþykkti einnig karlkyns eiginnöfnin Tíberíus, Frederik, Emanuel, Sotti, Nathaníel, Nikolaj, Theó, Theodor, Íkarus og Eydór.

Nefndin samþykkti ekki eiginnöfnin Toby (kvk.), Aleksandra, Lilith, Dania, Zebastian, Regin, Odin, Lord, Kain og Amando.

Mikill sigur

Regn Sólmundur Evudóttir er fyrsta manneskjan á Íslandi til að bera nafnið Regn sem eiginnafn. „Það er alveg mikill sigur að fá loksins að heita því sem ég heiti í þjóðskrá. Ég hafði beðið með að breyta nafninu mjög lengi því ég var svo hrætt um að mannanafnanefnd myndi hafna því,“ segir Regn í samtali við Fréttablaðið.

„Við eigum svo mörg falleg nöfn og möguleg nöfn sem henta öllum kynjum og það er bara synd að nýta það ekki, sérstaklega með nýju lögunum um kynhlutlausa skráningum,“ segir hán.

Regin ekki eins og Auðun

Regin taldist ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensk máls. Karlmannsnafnið Reginn finnst í elstu íslensku ritheimildum sem dvergsheiti og eitt af heitum Óðins. Nafnið er skylt fleirtöluorðinu regin (hvorkugkyn) sem merkir goð eða goðmögn. Ekki var hægt að fallast á að hefð sé fyrir rithættinum Regin í nefnifalli á þeirri forsendu að hefð sé fyrir því að rita nafnið Auðun með einu n í nefnifalli. Þessi túlkun er í samræmi við lög um mannanöfn og greinargerð með frumvarpi að lögunum.