Mannanafnanefnd hefur birt úrskurði frá 17 ágúst síðastliðnum um íslensk mannanöfn. Fjórtán nöfn voru samþykkt en þremur hafnað.

Nöfnin Andres, Elían, Franka, Gáki, Heiður, Ísbrá, Josefina, Mári, Miró, Nikk, Sólhrafn, Sólskríkja, Súddi og Svaný voru öll samþykkt en nöfnunum Candice, Kaya og Nathalía var hafnað.

Athugasemdir nefndarinnar

Samkvæmt Þjóðskrá ber einn drengur nafnið Andres og má finna það í að minnsta kosti tveimur manntölum frá árinu 1703 til 1920 og hefur því ritháttur þess öðlast hefð í íslensku.

Eiginnafnið Franka (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Frönku.

Eiginnafnið Gáki (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Gáka.

Heiður (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Heiðurs.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá ber engin kona, sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Josefina. Nafnið kemur hins vegar fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920. Þess vegna telst rithátturinn hafa öðlast hefð í íslensku.

Millinafnið Nikk getur talist dregið af íslenskum orðstofni, sbr. nafnorðið nikka. Einnig er til í óformlegu máli sagnorðið nikka (til e-s) og nafnorðið nikk, leitt af sagnorðinu. Millinafnið Nikk telst einnig að öðru leyti uppfylla skilyrði mannanafnalaga.

Nefndin tók fram að eiginnafnið Súddi (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Súdda, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði laga um mannanöfn.

Hafnað

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera tvær stúlkur, sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Kaya. Sú eldri er fædd 2003. Nafnið kemur ekki fyrir í neinu manntali frá 1703–1920. Þess vegna getur nafnið ekki talist hafa unnið sér hefð í íslensku og var því beiðni um nafnið Kaya hafnað.

Sömuleiðis máti ekki finna nafnið Nathalía í neinu manntali frá 1703 til 1920 og getur nafnið því ekki talist hafa unnið sér hefð í íslensku.

Sama gildir um nafnið Candice.