Mannanafnanefnd birti í dag úrskurði frá 6. nóvember síðastliðnum um íslensk mannanöfn. Tíu nöfn voru samþykkt en tveimur hafnað.

Beiðni um eiginnöfnin Charles, Damíen, Heiðbjartur, Ilíes, Kristólín, Marzellíus, Mikki og Rey eru samþykkt og skulu nöfnin færð á mannanafnaskrá.

Eflaust eru einhverjir Stjörnustríðs-aðdáendur ánægðir með það en Rey er nafnið á einni aðalpersónunni í nýjustu Star-Wars kvikmyndunum.

Þrátt fyrir að ritháttur nafnsins Charles geti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensk máls var fallist á það vegna þess að það telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera 14 karlar, sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Charles, sá elsti fæddur 1955. Þá kemur nafnið fyrir í fimm manntölum frá 1703–1920.

Einnig var fallist á föðurkenningarnar Andrésson og Viktorsson.

Lucifer hafnað

Nöfnin Lucifer og Zelda voru ekki samþykkt.

„Þar sem nafnið Lucifer er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama. Auk þess getur ritháttur nafnsins Lucifer ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn c telst ekki til íslenska stafrófsins,“ segir í úrskurði Mannanafnanefndar.

Zelda telst heldur ekki í samræmi við almennar ritreglur og samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera tvær konur eiginnafnið Zelda. Sú eldri fædd 2009. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Ekki er þannig hefð fyrir nafninu Zelda og því ekki hægt að samþykkja beiðnina.