Mannanafnanefnd birti í síðasta mánuði úrskurði frá 21. september síðastliðnum um íslensk mannanöfn. Tíu nöfn voru samþykkt en tveimur hafnað.

Beiðni um eiginnöfnin Agok, Klettur, James, Morten, Virgil, Leonel, Sofia, Ragný og Dyljá eru samþykkt ásamt beiðni um millinafnið Óldal og skulu nöfnin færð á mannanafnaskrá. Nöfnin Ivy og Theadór voru ekki samþykkt

Eflaust muna lesendur eftir því þegar mannanafnanefnd hafnaði nafninu Lucifer í fyrra: „Þar sem nafnið Lucifer er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama,“ sagði í úrskurði mannanafnanefndar. Þá er áhugavert að nefndin samþykkti nafn aðila sem einnig hefur komið við í helvíti en eflaust vegna þess að nafnið gæti ekki orðið nafnbera til ama líkt og nafn djöfulsins.

Áhugafólk um fornbókmenntir og 14. aldar bókmenntir kannast eflaust við nafnið Virgil en hann var rómverskt skáld, af mörgum talinn mest allra skálda á latínu. Dante Alighieri gerði Virgil að leiðsögumanni sínum í gegnum helvíti og hreinsunareldinn í Gleðileiknum guðdómlega. Eiginnafnið Virgil (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Virgils.

Millinafnið Óldal er dregið af íslenskum orðstofni, hefur ekki nefnifallsendingu og hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn karla né kvenna og nafnið er heldur ekki ættarnafn í skilningi laganna. Nefndin samþykkir það sem millinafn.

Sofia var samþykkt á þeim grundvelli að ritmyndin Sofia hafi unnið sér hefð í íslensku en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera a.m.k. 15 konur, sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Sofia. Sú elsta er fædd 1962.

Eiginnafnið Agok (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Agokar.

Eiginnafnið James tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Jamesar.

Eiginnafnið Leonel (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Leonels.

Eiginnafnið Ragný (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Ragnýjar.

Eiginnafnið Dyljá (kvk.) beygist eins og Diljá (kvk.)

Ivy og Theadór ekki í samræmi við almennar ritreglur

Nefndin taldi rithátt nafnsins Ivy ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem sérhljóðið y er ekki ritað aftast í íslenskum orðum nema í tvíhljóðinu ey. Væri því aðeins unnt að samþykkja nafnið Ivy væri hefð fyrir því og þarf það að hafa verið borið af a.m.k. 15 Íslendingum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera 8 konur sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna eiginnafnið Ivy. Sú elsta fædd 2002. Nafnið kemur þó ekki fyrir í neinu manntali frá 1703–1920. Þess vegna telst ekki hefð fyrir nafninu.

Ritháttur nafnsins Theadór getur heldur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem samstafan th er ekki notuð í ósamsettum orðum í íslensku nema í ritmyndum nafna sem hafa öðlast hefð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá ber enginn sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna eiginnafnið Theadór. Nafnið kemur heldur ekki fyrir í neinu manntali frá 1703–1920. Þess vegna telst ekki hefð fyrir rithættinum.