Maní, sau­tján ára trans strák sem átti að vísa úr landi í fyrra­málið, hefur verið lagður inn á barna- og ung­linga­geð­deild og hefur brott­vísun hans verið frestað. Sam­tökin No Bor­ders Iceland greina frá því að lög­reglan hafi stað­fest þetta við lög­mann fjöl­skyldunnar.

„Þó að það sé mikill léttir að brott­vísunninni hafi verið frestað, þá er vægast sagt hrika­legt að ís­lensk stjórn­völd hafi ekki gripið inn í fyrr,“ segir í Face­book færslu sam­takanna. Barn á ekki að þurfa að hrynja niður í dýpsta myrkur og þurfa á neyðar­að­stoð lækna, til þess að lög­reglan og dóms­mála­ráð­herra hlusti.“

Alls voru um 300 manns sem mótmæltu brottvísun Maní fyrr í dag fyrir utan dómsmálaráðuneytið en Maní segist óttast um öryggi sitt ef honum verði vísað úr landi þar sem hann hefur myndað djúp tengsl hér á landi og nýtur hér öryggis sem hann myndi ekki njóta í Portúgal eða Íran.

„Svo virðist sem það hafi átt að framkvæma brottvísunina þrátt fyrir all sem á undan var gengið. Sem betur fer þvertóku læknar fyrir að brottvísunin færi fram í nótt,“ segir í færslu No Borders en lögreglan hringdi í móður Maní, Shokoufa, meðan hann var í viðtali hjá barnageðlækni. „Við reiknum með því að baráttan þurfi að halda áfram næstu daga.“