Tekjuhár sjómaður tók í heimsfaraldrinum 70 milljóna króna húsnæðislán á breytilegum vöxtum. Hann byrjaði að borga af láninu í maí í fyrra, greiddi þá 370.000 krónur á mánuði. Eftir hrinu stýrivaxtahækkana Seðlabankans hefur nú mánaðarleg afborgun mannsins hækkað í 540.000 krónur eða um 170.000 krónur.

Á ársgrunni nemur hækkunin rúmum tveimur milljónum króna. Það þýðir að maðurinn þarf að auka tekjur sínar um rúmar 3,7 milljónir króna til að standa í skilum. Staða mannsins versnar enn í næstu viku þegar spáð er verulegri vaxtahækkun.

Símar Neytendasamtakanna eru rauðglóandi vegna Íslendinga sem eru að sligast vegna vaxtahækkana og verðbólgu að sögn Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna. Dæmið að ofan er frá Neytendasamtökunum komið. Sjómaðurinn hafði samband við samtökin vegna þess vanda sem hann stríðir við vegna stökkbreytts vaxtakostnaðar.

„Hann var á leið í bankann þegar hann hafði samband við okkur og ætlaði að endursemja,“ segir Breki. „En það eina sem hann getur gert er að fara aftur í verðtryggða vexti. Þá bíta seðlabankavextirnir minna en ella. Að reka flesta landsmenn aftur í verðtryggingu vinnur gegn því markmiði Seðlabankans að ná niður vöxtum.“

Breki segir umhugsunarefni að maðurinn hafi vegna hvatningar Seðlabankans og stjórnvalda á sínum tíma tekið þau skref sem hann steig í ákvörðunum um húsnæðismál. Nú spáir Íslandsbanki enn einni stýrivaxtahækkuninni, 0,75 prósenta hækkun í næstu viku. Bankinn segir nokkrar líkur á að vextir hækki enn meira eða um heilt prósent.

Verðbólga er þrálátari og verðbólguhorfur verri en Seðlabankinn vænti í febrúarbyrjun. Af þeim sökum er spáð að að vextir haldi áfram að hækka og nái ekki hámarki fyrr en um mitt þetta ár. Þá gætu landsmenn horft upp á að stýrivextir, sem voru lægstir 0,75 prósent fyrir skömmu, fari í 7,5 til 8 prósent.

Breki segir margt ungt fólk í miklum húsnæðisvanda. Margir fái kolsvarta niðurstöðu þegar spurt er með reiknivél hvort fólk geti keypt þak yfir höfuðið.

„Maður veltir fyrir sér hvort ruðningsáhrif aðgerða Seðlabankans séu að hafa verri afleiðingar en markmiðið, að ná niður verðbólgu,“ segir Breki og átelur að ekki fari saman hljóð og mynd.

„Á meðan Seðlabankinn kemur inn skömm hjá þeim sem fara á sólarströnd og taka mynd af eigin tásum, er bankinn sjálfur í heljarinnar framkvæmdum á eigin aðstöðu. Það er verið að laga eldhúsið í Seðlabankanum fyrir þrjá milljarða króna. Þarf aðhaldið ekki að byrja heima?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir koma á óvart að ríkisstjórnin virðist ekki tilbúin með neina sérstaka áætlun vegna þeirra hamfara sem nú skeki efnahagslífið. Einkum séu ungir húsnæðiskaupendur í miklum vanda.

„Ég hef sérstakar áhyggjur af högum ungs fólks. Það er ekki hægt að aðeins ungt fólk sem á efnaða foreldra, fjárhagssterka pabba og mömmur, getið komið yfir sig þaki,“ segir Þorgerður Katrín.