Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, gat ekki sagt til um hvort hópuppsögn Eflingar væri komin á borð stofnunarinnar þegar Fréttablaðið leitaði svara.

„Við gefum ekki upplýsingar, hvorki um einstök fyrirtæki né um félög. Þegar það eru svona hópuppsagnir þá birtum við yfirlit yfir fjölda fyrirtækja og starfsfólks annan dag hvers mánaðar. Þetta er bara vinnuregla hjá okkur,“ segir Unnur.

Uppsagnarbréf í skjóli nætur

Líkt og greint hefur verið frá barst starfsfólki á skrifstofu Eflingar uppsagnarbréf í nótt en þau funduðu í gær vegna málsins.

Ákvörðun stjórnarinnar um að segja öllu starfsfólki upp hefur verið harðlega gagnrýnd en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir hópuppsögnina óhjákvæmilega og að með henni sé Baráttulistinn að standa við kosningaloforð sitt um nauðsynlegar breytingar á starfsemi félagsins.

Í tilkynningu frá Baráttulistanum vegna málsins kemur fram að tilkynning um uppsagnirnar hafi verið send til Vinnumálastofnunar.

Einsdæmi í seinni tíð

Aðspurð segist Unnur ekki muna eftir sambærilegri uppsögn síðustu ár. „Nei, ekki hjá félagasamtökum svo ég muni.“

Unnur hefur sjálf starfað hjá Vinnumálastofnun frá 2005 og segist eingöngu muna eftir stórum hópuppsögnum hjá fyrirtækjum í rekstri en ekki félagasamtökum.

Hópuppsögn Eflingar sé því einsdæmi í seinni tíð.

Aðspurð hvort lögum hafi verið fylgt í tengslum við hópuppsögnina segist Unnur ekki geta tjáð sig um það.

„Þetta skoðum við í rólegheitum og þetta hefur bara sinn gang. Við erum ekkert farin að skoða þetta eða leggja mat á það eða neitt slíkt og munum ekki gera strax,“ segir Unnur.