Stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði (MÍ) hafa fjarlægt málverk af hjónunum Jóni Baldvini Hannibalssyni og Bryndísi Schram. Málverkið hefur hangið í matsal skólans í yfir þrjá áratugi.
Það staðfestir Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari MÍ, í samtali við fréttastofu. Hann segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir ábendingar frá nemendum og starfsfólki um að málverkið ylli óþægindum. Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað Jón Baldvin um að hafa brotið á sér kynferðislega.
Jón Baldvin var fyrsti skólameistari MÍ en stöðunni gegndi hann árin 1970 til 1979. Þá gegndi Bryndís Schram, eiginkona hans, stöðu skólameistara skólans um skeið en hún kenndi jafnframt ensku, latínu og frönsku við skólann.
Í frétt RÚV segir að að málverkið hafi verið gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans, sem útskrifaðist árið 1974. Árgangurinn hafi fært skólanum málverkið á tíu ára stúdentsafmæli þeirra árið 1984 og það hangið í matsalnum síðan þá.