Bandaríski bjórframleiðandinn MillerCoors, sem framleiðir m.a. Miller Lite og Coors Light, hefur höfðað mál gegn framleiðanda bjórsins Bud Light vegna auglýsingar sem sýnd var í hálfleik úrslitaleiks bandarísku NFL deildarinnar.

Úrslitaleikurinn í NFL deildinni er eins og vitað er kenndur við Ofurskálina (e. Super Bowl) og er það jafnframt alkunna að auglýsingarnar í hálfleik á þessum stærsta einstaka íþróttaviðburði Bandaríkjanna rándýrar. Fréttablaðið greindi t.a.m. frá því að framleiðandi Bud Light, Anheuser-Busch, myndi slá öll met í auglýsingakaupum fyrir síðastu Ofurskál.

Í hálfleik birtist auglýsing sem fjallar um ævintýri Bud Light kóngsins, sem fær óvænta sendingu af kornsýropi með miklu magni af ávaxtasykri (e. high fructose corn syrup). Hann kannast ekkert við sendinguna, enda notast hann ekki við slík efni í sinni vöru, en rennur blóðið til skyldunnar og reynir að koma sendingunni á réttan stað. Heimsækir hann því keppinauta sína, þ.e.a.s. Miller Lite og Coors Light, í von um að sendingin komist til skila, sem hún gerir á endanum.

Í stefnuskjali MillerCoors segir að með auglýsingunni hafi Anheuser-Busch beitt hræðsluáróðri í von um að snúa viðskiptavinum frá Miler Lite og Coors Light yfir í Bud Light. Bendir stefnan m.a. á að Anheuser-Busch notist við kornsýrop með miklu magni af ávaxtasykri í gerð annarra drykkja sem bruggverksmiðjan framleiðir. Segir jafnframt í stefnunni að MillerCoors notist aðeins við venjulegt kornsýróp, en það sé gjörólíkt því sem inniheldur mikið magn ávaxtasykurs.

Dómkröfur MillerCoors eru að auglýsingin verði tekin úr umferð og að Anheuser-Busch verði gert að sýna nýja auglýsingu til að leiðrétta „rangar og misvísandi fullyrðingar“. Jafnframt er farið fram á skaðabætur. Anheuser-Busch segist standa við fullyrðingarnar.