Í greiðsluáskorunum, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, dagsettum 4. desember 2019, veittu starfsmenn þriggja hótela á höfuðborgarsvæðinu vinnuveitendum sínum vikufrest til uppgjörs á vangoldnum launum, ella legði undirritað starfsfólk niður störf þar til gert yrði upp við það að fullu.

Í erindi frá lögmanni Samtaka atvinnulífsins, sem sent var til Eflingar degi áður en greiðslufrestur rann út, var vakin athygli á skaðabótaskyldu vegna ólögmætra verkfallsaðgerða. Þar sem um félagslega aðgerð stéttarfélags sé að ræða falli einnig niður „launagreiðslur til starfsmanna“.

Þá segir að fyrirtækið harmi rekstrarerfiðleika sem leitt hafi til vanefnda og geri nú allt sem í valdi þess stendur til að leysa úr þeim. „Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir eru ekki til þess fallnar að leysa þann vanda,“ segir í erindinu.

Í svari frá lögmanni Eflingar segir að leita verði annarra úrræða við rekstrarvanda. Hann verði ekki fjármagnaður með stuldi á launum. Þá er fordæmt að SA setji fram „hótun um að starfsmennirnir verið hýrudregnir leggi þeir niður störf“. Starfsfólkið hafi leitað til Eflingar vegna vangreiðslu launa sem greiða átti út um mánaðamót.

„Með vanskilum á launum hafi atvinnurekandinn brugðist þeirri grundvallarskyldu sinni að greiða fólki laun fyrir þá vinnu sem það hefur þegar innt af hendi.“ Réttur fólks til að boða vinnustöðvun, með hæfilegum fresti til úrbóta sé ein af fáum undanþágum frá friðarskyldu.Viðar Þorsteinsson, fram­kvæmda­stjóri Eflingar, segir að fjölmörg dómsmál séu höfðuð til að innheimta vangoldin laun á hverju ári. Fyrir komi að atvinnurekandi bjóði að greiða hluta af laununum strax gegn því að frekari kröfur falli niður.

„Það kemur fyrir að félagsmenn okkar samþykkja slík tilboð út úr neyð vegna þess hve langan tíma tekur að innheimta kröfur til fulls. Við hvetjum fólk auðvitað til að fara alla leið með kröfur sínar enda prinsippmál en þetta er bara raunveruleikinn. Við erum með félagsmenn á mjög lágum launum og það er freisting fyrir þá að fallast á tilboð af þessu tagi fremur en að bíða mánuðum saman eftir dómskerfinu,“ segir Viðar.

Þótt fólk af erlendum uppruna sé líklegast til að verða fyrir launasvikum segir Viðar það mýtu að vanþekkingu þess sé um að kenna. „Þetta fólk hefur þjálfað sig í að lesa og skilja kjarasamninga og er mjög duglegt að leita réttar síns,“ segir Viðar og bætir við: „Vandamálið er ekki þeirra heldur atvinnurekendanna. Refsileysið er ástæða þess að atvinnurekendur komast upp með þetta sér að kostnaðarlausu.

Aðspurður segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að frumvarp um aðgerðir tengdar Lífskjarasamningnum verði lagt fram á næstu vikum. Umrætt atriði sé það eina sem ekki náðist sátt um í vinnuhópi fulltrúa ASÍ og SA. „Það er verið að snikka slíkt ákvæði til,“ segir Ásmundur.