Ferða­mála­stofa vinnur nú að því að vísa máli ferð­skrif­stofunnar Far­vel til lög­reglu. Skarp­héðinn Berg Steinars­son, ferða­mála­stjóri, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að við skoðun hafi „eitt og annað“ komið í ljós sem Ferða­mála­stofa telji fremur eiga heima hjá lög­reglu en innan stofnunarinnar.

Ferðaskrifstofan, sem sérhæfði sig í ferðum til framandi staða, var svipt ferðaskrifstofuleyfi sínu eftir að hafa ekki skilað inn hærri skyldutryggingu, þrátt fyrir að hafa ítrekað fengið til þess frest.

Komið hefur fram í fjöl­miðlum að kröfu­hafar, sem greitt höfðu inn á ferðir sem ekki hafi verið farnar, segja Viktor Heið­dal Sveins­son, for­svars­mann Far­vel, hafa hringt í við­skipta­vini og krafið þá um greiðslur eftir að ljóst hafi verið að ferðirnar yrðu ekki farnar.

Að­spurður hvort að uppi sé grunur um að Viktor hafi krafið við­skipta­vini um greiðslur eftir að ferða­skrif­stofan hafi verið hætt störfum segir Skarp­héðinn:

„Það hefur komið fram hjá þessum aðilum að svo hafi verið,“ og vísar í orð kröfu­hafa. Hann vill þó ekki tjá sig um hvort það sé eitt af því sem kært hafi verið til lögreglu.

Allt unnið í samræmi við lög

Ei­ríkur Jóns­son, einn kröfu­hafanna, sagði frá því í út­varps­þættinum Bítinu í morgun að honum þyki Ferða­mála­stofa hafa sýnt ferða­skrif­stofunni of mikla lin­kind, en sam­kvæmt greinar­gerð sem kröfu­hafar fengu frá Ferða­mála­stofu fékk Far­vel í­trekaða fresti til þess að skila hækkaðri skyldu­tryggingu í sam­ræmi við aukin um­svif.

Skarp­héðinn segir hins vegar að allt málið hafi verið unnið í sam­ræmi við lög og reglur.

„Varðandi þær at­huga­semdir sem upp hafa verið bornar þá segjum við ekki annað en það að allt í þessu máli hefur verið unnið í sam­ræmi við lög sem gilda um Ferða­mála­stofu og þær verk­lags­reglur sem gilda í stjórn­sýslu við með­ferð slíkra mála.“

Ekki náðist í Viktor Heiðdal Sveinsson, forsvarsmann Farvel, við vinnslu fréttarinnar.