Tæpur mánuður er nú til næstu alþingiskosninga og stjórnmálaflokkar eru í óðaönn að kynna þær áherslur sem þeir vilja að næsta ríkisstjórn hafi að leiðarljósi. Fréttablaðið mun á næstu dögum gera þeim flokkum sem mælast inni á þingi skil og fjalla um lauslega um stefnu þeirra.

Efling iðnnáms og burt með eftirlaunaaldurinn
Framsóknarflokkurinn hlaut 12,7 prósent atkvæða og átta þingmenn í kosningunum 2017. Var þá gjarnan litið á kosninguna sem varnarsigur fyrir Framsókn í ljósi klofnings og stofnunar Miðflokksins.
Helstu áherslur:
- Barna- og fjölskyldumál: Framsóknarflokkurinn vill fara „dönsku leiðina“ svokölluðu með því að koma á þjónustutryggingu sem þýðir að ef einstaklingur fær ekki heilbrigðis- eða félagsþjónustu hjá hinu opinbera verði honum vísað til einkaaðila.
- Eldri borgarar: Í stefnuyfirlýsingu sinni segist Framsóknarflokkurinn vilja afnema reglur um að fólk verði að fara á eftirlaun eða hætta störfum við tilskilinn aldur.
- Menntamál: Framsókn vill auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja aukið jafnræði bók- og verknáms. Þá verði lögð áhersla á að tryggja innflytjendum tækifæri til að læra íslensku.

Krónan fest við evru og kvótinn boðinn upp
Í kosningunum 2017 hlaut Viðreisn um 6,7 prósent atkvæða. Vann flokkurinn þá fjóra þingmenn, þremur færri en í kosningunum árið áður, sem þótti endurspegla óánægju með samstarf hans með Sjálfstæðisflokknum.
Helstu áherslur:
- Efnahagsmál: Viðreisn vill gera samning við Seðlabanka Evrópu um að binda gengi íslensku krónunnar við evru. Væri þetta fyrsta skrefið í átt að upptöku evrunnar á Íslandi, sem draga myndi úr verðbólgu og gengissveiflum.
- Heilbrigðismál: Viðreisn telur öflugt þjónustuvætt heilbrigðiskerfi forsendu velferðar í íslensku samfélagi. Farsælust sé blönduð leið í rekstri greinarinnar.
- Sjávarútvegur: Viðreisn vill að réttur til veiða verði ákvarðaður með tímabundnum leigusamningum til tuttugu til þrjátíu ára í senn. Hluti fiskveiðikvótans verði boðinn upp á markaði ár hvert með nýliðun í huga

Minna bákn, breytt lífeyriskerfi og græn orka
Í alþingiskosningunum 2017 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn rúman fjórðung greiddra atkvæða og sextán þingmenn. Þrátt fyrir að vera enn langstærstur flokka á þingi var þetta næstversta kosning flokksins frá upphafi.
Helstu áherslur:
- Efnahagsmál: Í stjórnmálayfirlýsingu lofar Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgri efnahagsstjórn í anda þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur rekið frá árinu 2013. Flokkurinn vill að rekstur ríkissjóðs verði orðinn jákvæður fyrir lok kjörtímabilsins.
- Eldri borgarar: Flokkurinn vill innleiða nýtt fyrirkomulag á ellilífeyri almannatrygginga. Tilgangurinn sé að skapa raunhæfa hvata til atvinnu.
- Umhverfismál: Flokkurinn boðar „græna orkubyltingu“ til þess að leysa úr loftslagsvanda. Ísland hafi ómetanleg tækifæri til að hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa.
Fleiri flokkar verða teknir fyrir á næstu dögum.