Tæpur mánuður er nú til næstu alþingiskosninga og stjórnmálaflokkar eru í óðaönn að kynna þær áherslur sem þeir vilja að næsta ríkisstjórn hafi að leiðarljósi. Fréttablaðið hefur undanfarna daga gert þeim flokkum sem mælast inni á þingi skil og fjallað lauslega um stefnu þeirra.

Loftslagsváin og ný stjórnarskrá
Píratar hlutu rúm níu prósent atkvæða og sex þingmenn í kosningunum 2017, sem var nokkuð lakara en þeir náðu í kosningunum árið áður. Í könnunum hefur flokkurinn mælst með um ellefu til þrettán prósenta fylgi.
Helstu áherslur:
- Efnahags- og loftslagsmál: Píratar mæla fyrir kerfis-breytingum til þess að takast á við loftslagsvána. Þá taki efnahagsstjórn mið af þeim í auknum mæli. Þá telja þeir að endurskipuleggja verði stjórnsýslu og hefja samstarf við aðila vinnumarkaðarins.
- Ný stjórnarskrá: Píratar vilja innleiða stjórnarskrá stjórnlagaráðs. Muni innleiðingin fela í sér frekari lýðræðisumbætur, mannréttindi og stjórnarskrárbundið auðlindaákvæði.3
- Spillingarvarnir og réttlæti: Píratar boða ýmsar aðgerðir gegn sérhagsmunum og óæskilegum áhrifum stjórnmálamanna og fyrirtækja. Telur flokkurinn að aðgerðir þeirra muni leggja grunninn að betra samfélagi.

Hærri barnabætur og alvöru loftslagsaðgerðir
Samfylkingin hlaut um tólf prósent atkvæða og sjö þingmenn í kosningunum 2017. Að undanförnu hefur Samfylkingin mælst með fylgi í kringum ellefu prósent.
Helstu áherslur:
- Barna- og fjölskyldumál: Samfylkingin vill greiða barnafjölskyldum hærri barnabætur og gera það í hverjum mánuði. Jafnframt vill flokkurinn hækka þak á greiðslur í fæðingarorlofi í samræmi við launaþróun.
- Eldri borgarar: Flokkurinn vill hækka mánaðarlegt frítekjumark eldra fólks vegna lífeyrissjóðsgreiðslna úr 25 þúsund krónum í 50 þúsund krónur.
- Loftslagsmál: Samfylkingin vill að losun gróðurhúsalofttegunda verði dregin saman um minnst sextíu prósent fyrir árið 2030. Flokkurinn vill jafnframt hefja undirbúning að Keflavíkurlínu sem yrði græn tenging milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og styðja tæknilausnir til að fanga og farga kolefni.

Græn störf og jafnrétti kynjanna
Vinstri græn fengu síðast ellefu þingmenn með tæplega sautján prósentum atkvæða. Í könnun Gallup á dögunum mældist flokkurinn með fjórtán prósenta fylgi.
Helstu áherslur:
- Umhverfismál: VG vill að Ísland sé í forystu um róttækar, raunhæfar og réttlátar aðgerðir í umhverfismálum, draga úr losun, efla græna fjárfestingu og auka kolefnisbindingu.
- Heilbrigt atvinnulíf: Fjölbreytt atvinnulíf er heilbrigt atvinnulíf segir VG. Skapa á ný og fjölbreytt græn störf eftir Covid og koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Tryggja félagslegar áherslur í uppbyggingunni, öflugri stuðning við barnafjölskyldur og bætta framfærslu hinna tekjulægri.
- Jafnrétti: VG segir jafnrétti kynjanna og mannréttindi allra vera undirstöðu heilbrigðs lýðræðissamfélags. Halda eigi áfram að útrýma kynbundnu ofbeldi í samfélaginu og launamun kynjanna.