Tæpur mánuður er nú til næstu alþingiskosninga og stjórnmálaflokkar eru í óðaönn að kynna þær áherslur sem þeir vilja að næsta ríkisstjórn hafi að leiðarljósi. Fréttablaðið mun á næstu dögum gera þeim flokkum sem mælast inni á þingi skil og fjalla lauslega um stefnu þeirra.

Inga er formaður Flokks fólksins.

Nýjar almannatryggingar og nýtt húsnæði

Í alþingiskosningunum 2017 hlaut Flokkur fólksins tæp sjö prósent atkvæða og fjóra þingmenn. Tveir hurfu úr flokknum eftir Klausturmálið.

Helstu áherslur:

1. Almannatryggingar: Flokkur fólksins vill stofna nýtt almannatryggingakerfi til þess að tryggja lágmarksframfærslu. Þá vill flokkurinn leyfa öryrkjum að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga á bótum og án þess að örorka þeirra verði endurmetin.

2. Húsnæðismál: Flokkurinn vill afnema verðtryggingu húsnæðislána og hvetja til aukinnar uppbyggingar á nýju húsnæði. Þá vill flokkurinn að verð íbúðalóða sé miðað við raunkostnað.

3. Heilbrigðismál: Flokkurinn vill útrýma biðlistum í heilbrigðisþjónustunni með því að tryggja nauðsynlega fjármögnun. Jafnframt tryggja að fólk sem fæðist með lýti fái niðurgreiddar læknisaðgerðir frá Sjúkratryggingum.

Gunnar Smári er formaður Sósíalistaflokksins.

Hærri auðlegðarskatt og burt með kvótakerfið

Kosningarnar í ár eru fyrsta skiptið sem Sósíalistaflokkurinn býður fram til Alþingis. Samkvæmt könnunum er hann líklegastur nýrra flokka til að komast inn á þing.

Helstu áherslur:

1. Sjávarútvegur: Sósíalistaflokkurinn vill leggja niður kvótakerfið og brjóta upp stærstu útgerðarfyrirtækin. Flokkurinn vill binda í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlindin sé eign þjóðarinnar og stofna til fiskiþinga sem hafi með höndum að móta fiskveiðistefnu til lengri tíma.

2. Húsnæðismál: Sósíalistaflokkurinn vill byggja þrjátíu þúsund íbúðir á næstu tíu árum. Verði þetta gert með stofnun Húsnæðissjóðs sem afli nauðsynlegs fjármagns með sölu skuldabréfa.

3. Skattar: Sósíalistar vilja leggja nýjan auðlegðarskatt á eitt prósent skattgreiðenda. Þá vill flokkurinn hækka erfðafjárskatt en afnema tekjuskatt á fólk með lægri tekjur en nemur eðlilegum framfærslukostnaði.

Sigmundur Davíð er formaður Miðflokksins.
Fréttablaðið/Eyþór

Árlegt auðlindagjald og lög um tjáningarfrelsi

Miðflokkurinn bauð fyrst fram til þings 2017 og hlaut tæp ellefu prósent atkvæða og sjö þingmenn sem er einn besti árangur nýs þingframboðs á Íslandi. Fylgið hefur dalað í skoðanakönnunum að undanförnu.

Helstu áherslur: 1. Auðlindagjald: Miðflokkurinn vill greiða öllum landsmönnum auðlindagjald á fullveldisdaginn á hverju ári. Greiðslan á að nema 100.000 krónum fyrsta árið og á meðal annars að vera fjármögnuð með veiðigjöldum, hagnaði Landsvirkjunar og sölu losunarheimilda.

2. Fjármálakerfið: Miðflokkurinn vill að þriðjungi Íslandsbanka verði deilt jafnt á alla íslenska ríkisborgara sem verða lifandi fyrir árslok 2021 og að heimilt verði að selja bréfin eftir lok árs 2023.

3. Heilbrigðismál: Flokkurinn vill að öllum íslenskum ríkisborgurum búsettum á Íslandi yfir 40 ára aldri bjóðist ókeypis almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti.