Aðalheiður Ámundadóttir
aa@frettabladid.is
Laugardagur 12. desember 2020
12.00 GMT

Hæstiréttur hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförum árum. Hlutverki hans var breytt þegar nýtt millidómstig var tekið upp 1. janúar 2018 og dómurum við réttinn fækkað úr níu í sjö. Auk þess hafa mikil kynslóðaskipti orðið í réttinum en fimm reynsluboltar hafa látið af embætti og farið á eftirlaun á rúmu ári.

Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, segir að með breyttu hlutverki Hæstaréttar verði verkefni réttarins sambærileg við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og víðar. Við stofnun Landsréttar tók hann við hlutverki áfrýjunardómstóls og til hans má skjóta úrlausnum héraðsdómstólanna en Hæstiréttur dæmir í fordæmisgefandi málum. Eftir að dómur í Landsrétti liggur fyrir geta málsaðilar óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Rétturinn ákveður sjálfur hvort hann veitir slíkt leyfi.

„Til að áfrýjunarleyfi verði veitt í einkamáli þarf að fullnægja lögbundnum skilyrðum en þau eru að mál hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis. Einnig verður leyfi veitt ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð á lægri dómstigum hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur,“ segir Benedikt. Það sama gildi um sakamál auk þess sem heimild til áfrýjunar til Hæstaréttar sé rýmri hafi ákærði verið sakfelldur í Landsrétti eftir að hafa verið sýknaður með héraðsdómi.

Álag á hvern dómara mun minna en áður

„Þetta breytta hlutverk Hæstaréttar hefur haft mikil áhrif á störf réttarins,“ segir Benedikt. Dómarar við réttinn hafi lengst af verið níu en þeim var fjölgað tímabundið í tólf vegna mikils álags við réttinn eftir efnahagshrunið. Dómarar við réttinn eru nú sjö og á tímabilum starfa sex dómarar því dómarar eiga rétt á reglulegum námsleyfum.

„Í eldra kerfinu tók hver dómari þátt í tveimur til þremur munnlega fluttum málum í hverri viku auk þess að dæma í málum sem voru skriflega flutt. Nú situr hver dómari að jafnaði í einu máli í hverri viku,“ segir Benedikt.

Þrátt fyrir að málum hafi fækkað verulega bendir Benedikt á að flest þeirra mála sem fá efnismeðferð eftir breytinguna séu mikil að umfangi og kalli því á meiri vinnu. Þá þurfi samning dóma að taka mið af því breytta hlutverki Hæstaréttar að vera fordæmisgefandi dómstóll á þriðja dómstigi.


Í eldra kerfinu tók hver dómari þátt í tveimur til þremur munnlega fluttum málum í hverri viku auk þess að dæma í málum sem voru skriflega flutt. Nú situr hver dómari að jafnaði í einu máli í hverri viku.


Þá hafi ný verkefni einnig bæst við, þar á meðal afgreiðsla málskotsbeiðna. „Þetta er orðinn snar þáttur í starfi réttarins en honum bárust 162 beiðnir á árinu 2019 og það sem af er þessu ári eru beiðnirnar orðnar 127,“ segir Benedikt.

Nefnd þriggja dómara fjallar um slíkar beiðnir en dómarar skiptast á að sitja í þessari nefnd.

„Þegar fjallað er um slíka beiðni þarf að fara gaumgæfilega yfir þann dóm sem óskað er eftir að verði áfrýjað og meta þær röksemdir sem aðilar tefla fram með og á móti því að leyfi verið veitt. Þótt þetta sé mikið verk fer þó minni tími í að fjalla um þetta en að dæma þau mál sem flutt eru fyrir réttinum. Það er eftir sem áður helsta verkefnið,“ segir Benedikt.

Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, segir ekki til siðs að dómarar rífist um niðurstöðu mála. Dagurinn hefjist með handabandi.

Rifrildi ekki til siðs í Hæstarétti

Aðspurður um vinnubrögð dómara við úrlausn mála segir Benedikt að rakleitt eftir að mál hafi verið flutt og dómtekið fundi dómarar um málið. „Þar gerir sá dómari sem falið hefur verið að hafa framsögu í máli grein fyrir því og sinni tillögu að niðurstöðunni. Aðrir dómarar hver fyrir sig tjá sig síðan um málið og gera grein fyrir hvernig þeir telji að dæma beri málið. Í kjölfarið semur síðan sá dómari sem er frummælandi drög að dómi og aðrir dómarar taka afstöðu til þeirra draga,“ segir Benedikt. Sé einhver dómari, einn eða fleiri, ósammála niðurstöðunni, skili minnihlutinn sínu séráliti en meirihlutinn gangi frá dómi í málinu.

„Þegar verið er að fjalla um mál deila dómarar vissulega um niðurstöðuna en ná oft með samræðum einhug um hana. Það tekst þó ekki alltaf og þá skilar minnihlutinn sínu séráliti. Þetta gerist í friði og spekt og hér er ekki til siðs að rífast,“ segir Benedikt og bætir við: „Til marks um þetta er það gamall siður að hæstaréttardómarar hafa frá fornu fari heilsast með handabandi í upphafi dags til marks um að deilur gærdagsins eru frá og hafa ekki áhrif á samstarfið. Þessi siður hefur því miður verið aflagður eftir COVID-19 en vonandi verður hann tekinn upp aftur um leið og aðstæður leyfa.“


Hæstaréttardómarar hafa frá fornu fari heilsast með handabandi í upphafi dags til marks um að deilur gærdagsins eru frá og hafa ekki áhrif á samstarfið.


Sakamál fá mun sjaldnar efnismeðferð

Hæstiréttur hafnar langflestum málskotsbeiðnum í sakamálum og hefur aðeins samþykkt að taka níu sakamál til efnismeðferðar af tæplega 80 beiðnum sem borist hafa réttinum frá því nýtt kerfi var tekið upp. Það er aðeins um tíu prósent mála, samanborið við 24 prósent einkamála sem samþykkt hafa verið frá 1. janúar 2018.

Benedikt bendir þó á að fyrsta málið sem Hæstiréttur tók til efnismeðferðar eftir að hlutverki hans var breytt var sakamál. Um er að ræða sama mál og dæmt var í yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu 1. desember síðastliðinn.

Hins vegar séu réttmætar ástæður fyrir því hve sjaldan sakamál séu á dagskrá réttarins. Vitnaleiðslur fari aldrei fram í Hæstarétti og rétturinn endurskoði ekki mat Landsréttar um sönnunargildi munnlegra framburða fyrir dómi í sakamálum. Þetta sé vafalaust helsta ástæða þess að mun oftar séu veitt áfrýjunarleyfi í einkamálum en sakamálum.

Málskotsbeiðnir um áfrýjun sakamála eru mun sjaldnar samþykktar en um áfrýjun einkamála.

Skýra vafaatriði um sönnun og refsingu

Benedikt segir þó að sakamál geti komið til skoðunar í Hæstarétti, til dæmis ef vafi leiki á því hvernig skýra beri refsiákvæði í lögum og til að fá refsingu eða önnur viðurlög endurskoðuð. Þá séu dæmi um að áfrýjunarleyfi hafi verið veitt ef aðferðin við sönnunarmatið er ófullnægjandi.

Benedikt bendir á nýlegan dóm réttarins þar sem sönnunarmat var til skoðunar en með honum var dómur Landsréttar ómerktur þar sem verulegir annmarkar voru að þessu leyti taldir á niðurstöðu réttarins.

Fjórir dómarar af sjö skipaðir árið 2020

Mikil kynslóðaskipti hafa orðið í Hæstarétti að undanförnu. Miklir reynsluboltar hafa horfið á braut og nýir dómarar verið skipaðir í þeirra stað. Þrjár konur og fjórir karlar gegna nú embættum hæstaréttardómara. Fjórir af sjö dómurum réttarins voru skipaðir á síðustu tólf mánuðum. En nú má ætla að ró færist yfir réttinn varðandi mannabreytingar. Elsti dómarinn í réttinum er Ingveldur Einarsdóttir sem er 61 árs. Dómarar við Hæstarétt geta farið á eftirlaun við 65 ára aldur og að óbreyttu má því búast við að ekki verði breytingar í réttinum næstu fjögur ár í það minnsta.

Fjórir af sjö með framhaldsmenntun

Aðeins fjórir af dómurunum hafa framhaldsmenntun í lögfræði, Björg Thorarensen lauk meistaranámi við Edinborgarháskóla árið 1993 og Ólafur Börkur Þorvaldsson lauk meistaraprófi í Evrópurétti við Háskólann í Lundi árið áður en hann var skipaður í Hæstarétt. Ingveldur sótti sér framhaldsmenntun í þrígang meðan hún gegndi stöðu héraðsdómara. Hún nam umhverfisrétt við Uppsalaháskóla, mannréttindi í Oslóarháskóla árið 2011 og nám í Evrópurétti, EES-rétti og starfsmannarétti við Háskóla Íslands árið 2012. Ása Ólafsdóttir lauk meistaraprófi frá Cambridge háskóla í Bretlandi árið 2000.

Enginn dómaranna hefur doktorspróf, þótt Björg hafi reyndar leiðbeint nokkrum doktorsnemum.

Reynsla af fræðimennsku er orðin töluverð í réttinum. Björg hefur mesta reynslu úr háskólastarfinu en hún hefur verið prófessor frá árinu 2002. Ása Ólafsdóttir hefur verið í fullu starfi við lagadeild HÍ frá árinu 2008: fyrst sem lektor, svo dósent og loks prófessor árið 2018.

Sigurður Tómas Magnússon gegndi stöðu atvinnulífsprófessors við Háskólann í Reykjavík áður en hann var skipaður í Landsrétt og þá hefur Benedikt Bogason sinnt kennslu við Háskóla Íslands allt frá árinu 1993. Hann hlaut framgang í stöðu prófessors árið 2016. Karl Axelsson hefur einnig sinnt kennslu í lögfræði í tæpa þrjá áratugi, en hann gegnir stöðu dósents við Háskóla Íslands og kennir bæði eignarétt og fjölmiðlarétt.

Mikil kynslóðaskipti hafa orðið við réttinn en fjórir af sjö dómurum voru skipaðir árið 2020.
Fréttablaðið/Eyþór

Fjölbreytt sérsvið dómara

Vegna mikillar dómarareynslu og reynslu af lögmannsstörfum eru dómararnir sjö með mikla reynslu í réttarfari og hafa margir auk þess kennt réttarfar á háskólastigi. Nokkrir dómaranna hafa einnig setið í réttarfarsnefnd sem gerir tillögur til ráðherra um breytingar á réttarfarslögum og er til ráðgjafar við stjórnvöld á sviðinu.

Þorgeir Örlygsson, sem nýverið lét af störfum í réttinum, var einn fremsti fræðimaður landsins á sviði kröfuréttar en Benedikt hefur einnig kennt fagið um árabil í lagadeild HÍ og hefur gefið út fræðirit um almennan kröfurétt ásamt Þorgeiri.

Þekking á sviði Evrópu- og þjóðaréttar er einnig ágæt í réttinum en Björg hefur kennt þjóðarétt við HÍ og sat í samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þá hafa bæði Ingveldur og Ólafur Börkur menntun á sviði Evrópuréttar og bæði Ása og Benedikt verið varadómarar við EFTA-dómstólinn.

Bæði Ingveldur og Benedikt hafa setið í nefndum á sviðum barnaverndarmála og Ása í kærunefnd jafnréttismála. Þá hefur Ása gefið út fræðirit á sviðum samningaréttar, fjármunaréttar og neytendaréttar og Björg á sviði stjórnskipunarréttar og mannréttinda. Nýtt fræðirit eftir hana á sviði persónuverndarréttar kemur út á næstunni.

Á sviði refsiréttar má nefna að Sigurður Tómas var settur ríkissaksóknari í Baugsmálunum svokölluðu og hefur setið í refsiréttarnefnd. Ása Ólafsdóttir hefur einnig komið töluvert að kynferðisbrotamálum, bæði sem lögmaður á neyðarmóttöku og sem ráðgjafi stjórnvalda í ýmsum nefndum á því sviði.

Þá er ótalin sérstök þekking Karls Axelssonar á sviði eignarréttar en hann hefur bæði lengi fengist við kennslu á því sviði auk ráðgjafar við stjórnvöld á sviði eignarréttar og viðamikils starfs í óbyggðanefnd meðan þjóðlendumálin voru þar til afgreiðslu. Hann er meðhöfundur nýs fræðirits um eignarrétt sem kom út á þessu ári og ráðgerir útgáfu annarrar bókar um eignarnám á næsta ári. Hann kennir einnig fjölmiðlarétt í lagadeild HÍ.

Reynsluboltar í helgan stein

Meðal fræðimanna sem horfið hafa úr réttinum síðustu ár eru Viðar Már Matthíasson, sérfræðingur í skaðabótarétti, og Páll Hreinsson, einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði stjórnsýsluréttar.

Á sviði skaðabótaréttar má segja að Landsréttur sé betur skipaður en þar situr helsti fræðimaður landsins á þessu sviði, Eiríkur Jónsson, auk Jóhannesar Sigurðssonar, sem kenndi skaðabótarétt í áratugi.

Þótt núverandi dómarar við Hæstarétt bæti ekki fyrir brotthvarf Páls á sviði stjórnsýsluréttar, vinnur löng dómarareynsla það upp að einhverju leyti en auk þess hafa nokkrir dómaranna starfsreynslu á sviði stjórnsýsluréttar, hafa ýmist starfað hjá Umboðsmanni Alþingis eða gegnt stjórnendastöðum í ráðuneytum.

Athugasemdir