Í gær staðfesti Alþingi síðari talninguna í Norðvesturkjördæmi með 42 atkvæðum á móti fimm, sextán sátu hjá.

Birt voru fjögur nefndarálit með þremur tillögum í talningarmálinu á vef Alþingis í gær og á þingfundi í gær kom ein breytingartillaga við tillögu meirihlutans.

Alveg frá upphafi kosningarklúðursins í Norðvesturkjördæmi hefur legið ljóst fyrir að niðurstaða málsins yrði aldrei á þann veg að allir yrðu sáttir við hana.

Skrípaleiknum lokið

Guðmundur Gunnarsson, einn jöfnunarþingmanna Viðreisnar sem datt út af þingi við síðari talningu, tjáir sig um atkvæðagreiðsluna í Facebook-færslu. Hann var einn þeirra sem kærði kosningarnar til Alþingis.

„Það gerðist margt fallegt í dag,“ svona hefst færsla Guðmundar. Hann segir gott að sjá að á Alþingi sitji sextán frábærir þingmenn og telur vel hægt að endurreisa traust á þeim grundvelli og undir þeirra leiðsögn. Þá hrósaði hann vinkonu sinni og varaþingmanni fyrir jómfrúarræðu sína úr ræðustól Alþingis.

„Það besta við daginn var hins vegar sú staðreynd að nú er þessum skrípaleik lokið,“ segir Guðmundur jafnframt.

„Ég dreg ekkert undan þegar ég segi að þetta er búið að vera hrein hörmung. Gengdarlaus óvissa og biðstaða þar sem von hefur verið á niðurstöðu “innan skamms” í 8 vikur samfellt.“

Að sögn Guðmundar svíði óréttlætið mest, fyrir hönd allra þeirra sem eigi að geta treyst því að löglega sé staðið að kosningum á Íslandi. „Málið heldur nú áfram út fyrir Austurvöll.“

Ólögmætt þing

Magnús Davíð Norðdahl, lögfræðingur, segist hryggur yfir því hvernig komið er fyrir þjóðinni í Facebook-færslu.

„152. löggjafarþing þjóðarinnar er ólögmætt þing og ekkert sem frá því stafar, hvorki ríkisstjórnin sem völd sín hefur í skjóli meirihluta hins ólögmæta þings né heldur dómarar sem skipaðir verða af dómsmálaráðherra þeirrar ríkisstjórnar fram að næstu alþingiskosningum,“ segir Magnús Davíð meðal annars í færslunni.

Hann segir að einhverju mannlegt að alþingismenn láti stjórnast af sérhagsmunum en að það sé líka ákaflega sorglegt.

„Vandamálið við Ísland er að almenningur trúir því oft ekki hversu víðtæk spillingin er. Samt fer hún iðulega fram fyrir opnum tjöldum,“ segir Magnús Davíð.

Að sögn Magnúsar Davíðs getur þingið aldrei talist lögmætt vegna allra annmarka í framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi.

„Eftirmálar þess óheillaspors að staðfesta kosningarnar í Norðvesturkjördæmi munu hafa neikvæð áhrif á íslenskt samfélag á næstu árum, hvort sem það er vegna dómsmáls fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eða þegar kjörstjórnarmeðlimir úr Norðvesturkjördæmi mæta fyrir dóm til að svara til saka þegar ákærur verða gefnar út, hafi þeir ekki þegar greitt ákvarðaðar sektir,“ segir Magnús Davíð jafnframt í færslu sinni.

Biður Íslendinga afsökunar

„Ég er orðlaus,“ svona hefst færsla Lenyu Rúnar Taha Karim, frambjóðandi Pírata sem datt útaf þingi í síðari talningu í Norðvesturkjördæmi, á Facebook-síðu hennar.

„Ég verð hluti af þeirri kynslóð sem tekur við keflinu í stjórnmálum bráðlega en núverandi ráðamenn hafa ákveðið að afhenda minni kynslóð laskað traust til lýðræðisins, Alþingis og kosninga,“ segir Lenya Rún í færslunni.

Þá biður hún alla Íslendinga afsökunar á niðurstöðunni.

„Nú hefst vonandi uppbyggingarferli og þrátt fyrir líklegan áfellisdóm Mannréttindadómstóls Evrópu yfir Alþingi Íslendinga mun ég reyna mitt besta til að endurvekja þetta traust. Ég mun nýta þessi 4 ár (ef ríkisstjórnin endist það lengi) í að læra inn á störf þingsins þegar ég kem inn sem varaþingmaður, klára háskólann og vonandi masterinn með og öðlast reynslu og þekkingu í lögfræði. Ég kem sterkari til baka fyrir vikið og vil vera talskona minnar kynslóðar í næstu kosningum fái ég umboð til þess. Ég er rétt að byrja.“