Meðferð á fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra hefst bráðlega í allsherjar- og menntamálanefnd. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins í gær mælist fylgi lítið við opinberan fjárstuðning til einkarekinna miðla.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstöður könnunarinnar komi sér ekki á óvart. Hann, ásamt þremur öðrum þingmönnum flokksins, lagði fram frumvarp um að skattar yrðu lækkaðir á einkarekna miðla.

„Hvort sem um beina styrki eða skattaívilnanir er að ræða, þá lagfærir þetta ekki þá ójöfnu stöðu sem er í samkeppnisumhverfi fjölmiðla,“ segir Óli Björn. „Ef við ætlum að styrkja sjálfstætt starfandi fjölmiðla af einhverri alvöru þá verður að líta til þeirra gríðarlegu umsvifa sem Ríkisútvarpið hefur.“

Hann segist ekki hafa verið talsmaður sértækra aðgerða fyrir ákveðnar atvinnugreinar, en taldi þó rétt að leggja frumvarpið fram til þess að jafnt myndi ganga yfir alla einkarekna miðla.

Samkvæmt könnuninni sker stuðningsfólk Samfylkingarinnar sig nokkuð úr, en 44 prósent styðja þá leið sem ráðherra vill fara. Logi Már Einarsson, formaður flokksins, segir mikilvægt að styðja bæði einkarekna miðla og Ríkisútvarpið.

„Fólk getur haft skoðanir á leiðum til þess og eflaust hefðum við gert þetta á aðeins annan hátt,“ segir hann. „Ég hef þó verið jákvæður í að stíga skref í þessa átt.“

Spurður hvor leiðin sé betri, beinn fjárstuðningur eða skattalækkanir, segir Logi að honum hugn­ist fyrri leiðin betur. Gæta þurfi þess að minni miðlar njóti einhvers af þeim stuðningi. Fara þurfi varlega ef hrófla á við stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. „Það yrði þá að tryggja, til mjög langs tíma, að starfsemi RÚV veikist ekki,“ segir hann.

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir að könnunin hafi ekki áhrif á þinglega meðferð nefndarinnar á frumvarpinu. „Þessar niðurstöður koma nú ekki mikið á óvart, þetta er umdeilt mál og vandmeðfarið. Þetta kann hins vegar að hafa áhrif á afstöðu fólks þegar þinglegu meðferðinni er lokið,“ segir hann.

Frumvarp þingmannanna fjögurra verður ekki afgreitt á sama tíma, enda komið skemur í meðferð þingsins. Páll segir þó að fjölmiðlafrumvarp Lilju geti tekið ýmsum breytingum í nefndinni. Málið sé tímafrekt og flókið. „Staða RÚV kemur vafalaust inn í þetta því það liggur fyrir álit margra Sjálfstæðismanna og annarra um að ekki verði horft einangrað á málið.“

Aðspurður um hvort málið sé ekki þess eðlis að sátt verði að nást á milli allra stjórnarflokkanna segir Páll svo vera. „Þetta er ekki mál sem er hægt að leysa í einum allsherjar ágreiningi.“