Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir mál sexmenninganna væri komið í farveg hjá forsætisnefnd þingsins og verður rannsakað sem mögulegt siðabrot. Í yfirlýsingu, sem forseti Alþingis las í þingsal fyrir stuttu, sagði hann ummæli þingmannana sex óverjandi og óafsakanleg.

Útbreidd og eðlileg hneykslun

„Eins og opinbert hefur orðið að hópur þingmanna úr tveimur þingflokkum sat á veitingahúsi hér í nágrenni við þinghúsið, að hluta til meðan þingfundur stóð,“ sagði forseti Alþingis „og ræddi þar sín á milli á almannafæri, þannig að útbreidda og eðlilega hneykslun hefur vakið. Orðbragð sem þarna virðist sannarlega hafa verið viðhaft er að öllu leyti óverjandi og óafsakanlegt,“ sagði forseti Alþingis, er hann fór með yfirlýsingu sem samþykkt var af forsætisnefnd.  

„Ekki síst er það með öllu óverjandi og úr takt við nútímalegt viðhorf hvernig þarna var fjallað um konur og hlut kvenna í stjórnmálum og einnig fatlaða og hinsegin fólk,“ sagði Steingrímur. 

„Það er löngu tímabært og lýðræðisskipulaginu lífsnauðsynlegt í nútímanum a útrýma öllu ómenningartali af þessu tagi úr stjórnmálum.“

Fyrsti fundur eftir Klaustursupptökurnar

Forsætisnefnd fundaði í morgun vegna málsins og var þar samþykkt yfirlýsing sem Steingrímur las fyrir þingið. Óundirbúinn fyrirspurnartími stendur nú yfir á Alþingi, en er þetta í fyrsta sinn sem þingmenn hittast eftir að Klaustursupptökurnar voru birtar. Þá kvaðst Steingrímur óska þess að þingið gæti haldið áfram með störf sín og bað þá þingmenn sem þarna komu að máli, konur, hinsegin fólk, fatlaða og þjóðina afsökunar fyrir hönd þingsins.

Að lokum sagðist Steingrímur óska þess að Alþingi hlífði sér, sem og almenningi, við frekari umræðu um málið innan veggja þingsins. 

Tveir reknir, tveir í hléi og tvö sitja enn 

Illt umtal þingmanna úr Miðflokknum og Flokki fólksins í garð samstarfsmanna sinna og annarra nafntogaðra einstaklinga vakti harða gagnrýni. Þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem þá voru þingmenn Flokks fólksins, sátu á sumbli á barnum Klaustur í miðbæ Reykjavíkur í nóvember. 

Þar ræddu þau ófögrum orðum um ýmsar þingkonur, sem og um Freyju Haraldsdóttur, fyrrum varaþingmann Bjartrar framtíðar og fleiri nafntogaða einstaklinga. 

Samræður þingmannanna voru teknar upp og sendar á nokkra fjölmiðla sem birtu ummæli þingmannanna. Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason voru reknir úr Flokki fólksins fyrir helgi vegna ummælana en í umræðunum var Inga Sæland, formaður Flokks fólksins meðan annars kölluð „húrrandi klikkuð kunta.“ Þeir eru nú óháðir þingmenn. 

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, eru komnir í leyfi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og Anna Kolbrún Árnadóttir sitja enn á þingi.