Lands­réttur ó­merkti í dag dóm Héraðs­dóms Norður­lands vestra í máli manns sem dæmdur var til að greiða 280 þúsund krónur, ellegar sæta 20 daga fangelsi, fyrir að hafa ekið bíl sviptur öku­réttindum ævi­langt og undir á­hrifum á­fengis.

Á­stæðan er sú að manninum sjálfum var í raun ekki birt fyrir­kall vegna dóm­þings, þess efnis að hann væri á­kærður í málinu. Í dómnum segir að fyrir­kall hafi verið gefið út af héraðs­dómi 20. septem­ber 2017.

Lögreglumaður fékk stefnuna

Á­kæra hafi verið birt manninum á heimili hans þann 12. októ­ber sama ár en dóm­þing átti að fara fram 24. októ­ber. Var maðurinn kvaddur til að „koma fyrir dóm, hlýða á á­kæru, halda uppi vörnum og sæta dómi“. Kæmi hann ekki fyrir dóm yrði það til jafns við viður­kenningu á brotinu.

Í birtingar­vott­orði sem lagt var fyrir dóminn kemur hins vegar fram að á­kæra hafi verið birt öðrum manni, starfs­manni lög­reglunnar, sem engin tengsl hafði við hinn á­kærða. 

Við þing­festingu málsins var bókað að hinn á­kærði hefði ekki mætt fyrir dóm né boðað for­föll. Dómur héraðs­dóms var kveðinn hinn 27. októ­ber og þar rang­lega hermt að fyrir­kall og á­kæra hafi verið birt manninum sem á­kærður var.

Vísað aftur í hérað

Við aðal­með­ferðina hafi hins vegar komið fram að rann­sóknar­lög­reglu­maður, sem var stefnu­vottur í málinu, hafi á­samt öðrum lög­reglu­manni farið á heimili hins á­kærða í þeim erinda­gjörðum að birta honum stefnuna. 

Á staðnum hafi enginn verið og ekki náðst í manninn sím­leiðis. Annar lög­reglu­maðurinn birti því hinum á­kæruna sem með honum var staddur, og hefði það því verið í verka­hring þess síðari að birta manninum sem á­kærður var fyrir­kallið.

Það hafi ekki tekist en Lands­réttur mat það svo að lög­mæt birting á­kæru hafi ekki farið fram og fyrir­mælum um með­ferð saka­mála ekki verið fylgt í kjöl­far birtingar. Er dómur héraðs­dóms því ó­merktur og málinu vísað aftur í hérað til lög­legrar með­ferðar og dóms­á­lagningar að nýju.

Dómur Landsréttar í málinu.