„Ég get áfrýjað til æðra dómstigs," segir Jóhann Helgason sem um helgina fékk þau tíðindi frá Los Angeles að dómari í lagastuldarmáli hans hefði orðið við kröfu tónlistarrisanna Warner og Universal og vísað málinu frá.

Að mati dómarans, André Birotte Jr., eru ekki slík líkindi milli lags Jóhanns, Söknuðar, og lagsins You Raise Me Up eftir Rolf Løvland, að þau jafngildi lagastuldi. Tekur Birotte þar undir með tónlistarsérfræðingnum Lawrence Ferrara sem vann sérfræðiálit fyrir Universal og Warner. Dómarinn segir skýrslu sérfræðings Jóhanns, Judith Finell, að sama skapi gallaða og þar með ómarktæka.

Jóhann segir að nú geti málareksturinn tekið nýja stefnu. Þrátt fyrir að hann geti áfrýjað til æðra dómstigs verði erfiðara að sækja málið. „Með þessari frávísun er verið að taka frá mér tækifæri því þá er bara verið að hlusta á þá og þeirra málstað. Þá er algerlega verið að hunsa mat þungavigtar tónlistarfræðings sem vann fyrir mig," segir hann. Svo virðist sem dómarinn hafi ekki skoðað öll gögnin því vissar rangfærslur séu í niðurstöðu hans.

Að sögn Jóhanns hefur alltaf verið óvissuþáttur varðandi afstöðu dómara burtséð frá því hversu gott mál menn hafi í höndunum. Það sé umhugsunarefni að dómarinn hafi beðið í fjóra mánuði frá því málið var síðast tekið fyrir þar til hann birti niðurstöðu sína. Engu líkara væri en að hann hefði verið að bíða eftir dómi í svokölluðu Led Zeppelin-máli sem féll fyrir nokkrum vikum til að geta vitnað til þess dóms. Í því máli var áðurnefndur Ferrara einnig sérfræðingur fyrir annan málsaðilann.

„Dómarinn virðist leggja afar þröngan skilning í málið. Hann segir að lögin séu ekkert lík og hengir sig í þrönga skilgreiningu sem tónlistarfræðingur fyrirtækjanna setur fram. Þá er öllu hent út sem tengist aðgengi Løvland að Söknuði, til dæmis því að hann var hér á Íslandi. Þetta er mjög einkennilegt,“ segir Jóhann.