Máli Wiktoriu Joönna Ginter, eins aðstandenda tónlistarhátíðarinnar Iceland to Poland, gegn Svikamyllu ehf, fyrirtæki hljómsveitarinnar Hatara, hefur verið vísað frá dómi. Málið sneri að meintum samningsbrotum þegar sveitin hætti við að koma fram á hátíðinni. Samkvæmt upplýsingum frá Sævari Þór Jónssyni, lögmanni Wiktoriu, voru þau búin undir þessa niðurstöðu og verður málinu áfrýjað til Landsréttar.

Sögð hafa farið fram á sex sinnum hærri greiðslur

Að sögn Sævars lagði Svikamylla fram nokkrar frávísunarkröfur í málinu og var öllum nema einni hafnað. Sú sneri að því að samkvæmt samningi á milli Wiktoriu og Hatara skal vísa ágreiningsatriðum til gerðardóms í stað dómstóla. „Við erum efnislega mjög ósammála því og munum vísa málinu til Landsréttar,“ segir Sævar. Hann segir það ákvæði samningsins vera mjög opið og því vilji þau láta reyna á það fyrir Landsrétti. „Þetta gæti verið fordæmisgefandi í fleiri málum.“

Í frétt sem birtist á vef Fréttablaðsins í ágúst segir að sveitin hafi farið fram á sex sinnum hærri greiðslur en samið hafði verið um, og það hafi aðstandendur hátíðarinnar ekki viljað samþykkja. Í tilkynningu frá sveitinni sagði hins vegar að ástæða þess að Hatari hafi hætt við að taka þátt ekki hafi verið „séð fram á að sveitin fengi greitt fyrir sína framkomu.“

Klemens Hannigan, meðlimur Hatara vildi ekki tjá sig um niðurstöðuna þegar Fréttablaðið hafði samband við hann og ekki náðist í lögmann Svikamyllu ehf.