Pétur Gunnlaugsson, umsjónarmaður símatímans á Útvarpi Sögu, gerði brottrekstur Kristins Sigurjónssonar frá Háskólanum í Reykjavík að umtalsefni í þættinum í morgun og sagði meðal annars að skoðanakúgun væri ríkjandi á öllum stigum samfélagsins og beindist ekki síst gegn hvítum karlmönnum sem sjálfsagt þyki að rekja úr starfi vegna skoðananna þeirra.

Sjá einnig: Brottrekinn lektor leggur til Hjallastefnuna á vinnustöðum

Kristinn hefur um árabil hringt reglulega í símatímann á Útvarpi Sögu og meðal annars talað mikið um umgengnistálmanir. Pétur telur víst að rekja megi brottrekstur Kristins til orða sem hann hefur látið falla í beinni útsendingu á Sögu, þótt ummæli sem hann lét falla í lokaða Facebook-hópnum Karlmennskuspjallið hafi ráðið úrslitum.

„Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum,“ sagði Pétur og furðaði sig á því að brottrekstur „ágæts kennara“ hafi ekki vakið meiri viðbrögð, ekki síst innan „akademíunnar.“ Þetta er skammarlegt að mati Péturs og auðvitað „grafalvarlegt mál þegar allt of fáir vilji verja tjáningarfrelsið.“ Það gangi ekki upp ef fólk taki aðeins til varna fyrir eigin skoðanir en ekki annarra.

„Meira að segja á miðöldum var háskólinn griðastaður fyrir frjálsa hugsun, umræðu og skoðanamyndum,“ sagði Pétur í samtali við innhringjanda og velti fyrir sér hvort ákveðið hafi verið að reka Kristinn frá HR vegna þess að hann hafi ekki farið eftir „leiðbeiningum“ skólans um hvernig eigi að hugsa.

Femínistar leggja línurnar

Pétur rekur meintar aðfarir að málfrelsinu ekki síst til femínista sem hann segir ganga út frá þeirri kenningu að „ef einhver tali illa um konur þá sé það hatursorðræða.“ Þá spurði hann einn viðmælanda sinn hvort honum þætti rétt að banna skoðanafrelsi í skólum.

Hann lét þess einnig getið að svo virtist sem hvorki stjórnmálamenn né fjölmiðlar hafi áhuga á því að verja skoðanafrelsi nema þegar spjótunum er beint að þeim sjálfum. Ástandið sé því orðið þannig að menn „þori ekki að láta uppi skoðanir sínar af ótta við að missa vinnuna.“

Þá stakk Pétur upp á því að eðlilegast væri að „femínistarnir sem eru minnihluti kvenna“ útbúi „leiðbeiningapésa“ um hvað megi segja og hvað ekki. Karlar geti svo lært reglurnar utanbókar svo þeir „ lendi ekki í vandamálaum og missi vinnuna.“

Klámprestur yrði ekki rekinn

„Fullt af fólki finnst það bara í lagi að menn séu reknir fyrir skoðanir sínar,“ sagði Pétur og tók síðan dæmi um prest sem ánetjast klámi. „Ef prestur lýsti því yfir að hann tryði ekki á Guð, heldur klámblöð, þá yrði hann ekki rekinn þótt hann væri að vinna gegn kirkjunni,“ sagði hann og botnaði með því að svona væri samfélagið skrítið á Íslandi.

Sjá einnig: Vilja að biskup reki „klámklerkinn“

Pétur benti einnig á að stjórnarskráin gerði ráð fyrir því að mönnum væri „frjálst að hafa sínar skoðanir“ og gerði ekki ráð fyrir að Háskólinn í Reykjavík og skóli á Akureyri, með vísan í mál Snorra Óskarssonar kenndum við Betel, gætu takmarkað skoðanafrelsi. „Það er stórmerkilegt að svona mál komi upp árið 2018.“

Pétur sagði fólk svipt mannréttindum og tjáningarfrelsi tekin af fólki og „fólki í stjórnkerfinu er nákvæmlega sama.“ Þá sagði Pétur að í ljósi þess að HR er að hluta rekinn fyrir opinbert fé væri réttast að menntamálaráðuneytið skrúfaði fyrir fjárveitingar til skólans. En þar sem stjórnvöld hafi lítinn áhuga á tjáningarfrelsinu „verður áfram hægt að reka fólk fyrir óæsklilegar skoðanir.“

Símatíminn á Útvarpi Sögu er endurfluttur milli klukkan 19-22 í kvöld á FM 99,4.