Réttindi barna eru Ás­mundi Einari Daða­syni, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, hjartans mál og náði hann á yfir­standandi þingi að fá sam­þykkt fimm frum­vörp sem að öllum líkindum fela í sér mestu breytingu sem gerð hefur verið á um­hverfi barna á Ís­landi í ára­tugi.

Ás­mundur Einar sagði sögu sína af erfiðum upp­vexti í Morgun­blaðinu fyrir rúmu hálfu ári og segir að það hafi breytt miklu fyrir þá veg­ferð sem hann fór svo í með þessi mál.

„Það hefur í raun haft miklu meiri á­hrif en ég gerði ráð fyrir. Þau sem ég var að vinna með í ráðu­neytinu voru búin að skynja að ég hafði mikinn á­huga á þessum málum. En ég vildi ekki tala um þetta fyrr en málin væru komin „í höfn“ auk þess sem ég var ekki til­búinn til að opna mig um þetta fyrr,“ segir Ás­mundur.

Hann segir að hann hefði aldrei opnað sig svona fyrir fjórum árum, við upp­haf kjör­tíma­bilsins.

„Það var heiður að fá að sinna þessum mál­efnum, og við­kvæmustu hópum sam­fé­lagsins, og ná að tengja við þau á þessu kjör­tíma­bili. Ég hugsaði að ég yrði að nota næstu fjögur árin til þess að sinna þessu, því það var eitt­hvað sem ég átti ó­upp­gert úr minni for­tíð. Ég sagði for­manni mínum ekki frá því að ég ætlaði að leggja á­herslu á barna­mál, heldur fór að vinna í þeim sam­hliða öðrum málum,“ segir Ás­mundur.

„Þetta er dag­lega þerapían mín, að fá að sinna þessum mála­flokki og ég finn sterkt hvernig þetta eykur vel­líðan og á­nægju,“ segir Ás­mundur.

Um er að ræða frum­varp um sam­þættingu þjónustu í þágu far­sældar barna, frum­varp um Barna- og fjöl­skyldu­stofu og frum­varp um Gæða- og eftir­lits­stofnun vel­ferðar­mála, frum­varp um Greiningar- og ráð­gjafar­stöð ríkisins auk frum­varps um breytingar á barna­verndar­lögum, sem meðal annars felur í sér að pólitískt skipaðar barna­verndar­nefndir verði nú lagðar niður. Þá var þings­á­lyktunar­til­laga um Barn­vænt Ís­land einnig sam­þykkt.

Fréttablaðið/Ernir

Lang­tíma­verk­efni

Hann segir verk­efnin sem fram undan eru vera tví­þætt. Það er annars vegar að bæta þjónustu við börn innan vel­ferðar­kerfisins og að ýta undir bætt réttindi þeirra og getu barna til að nýta rétt sinn.

„Það er annars vegar þjónusta við börn, vel­ferðar­kerfið og hvernig það er haldið utan um þau og þar erum við að búa til nýtt vel­ferðar­kerfi. Þriggja laga vel­ferðar­kerfi og ég held að það átti sig ekki allir á því hvað það er risa­stór breyting. Það hefur fengið meiri um­fjöllun að pólitískt skipaðar barna­verndar­nefndir verði lagðar niður, sem er í raun miklu minni breyting en hin,“ segir Ás­mundur Einar.

Hann segir að þegar farið var í þessa vinnu hafi það orðið nokkuð ljóst snemma í ferlinu að raddir barna og réttindi þeirra yrðu ekki slitin úr sam­hengi við þessar breytingar.

„Þetta er sín hliðin hvor á sama peningnum og mér fannst verða að vinna þetta sam­hliða. Þess vegna fórum við af stað í þessi verk­efni öll á sama tíma,“ segir Ás­mundur og bætir við:

„Þó svo að frum­vörpin og þings­á­lyktunin hafi verið sam­þykkt á þingi núna, er um að ræða lang­tíma­verk­efni.“

Í þings­á­lyktunar­til­lögunni um barn­vænt Ís­land eru til­lögur sem tíma­settar eru allt til ársins 2024. Sumar eru þegar komnar í fram­kvæmd, eins og mæla­borð á vel­ferð barna sem stefnt er að því að opin­berir aðilar geti nýtt til að halda utan um töl­fræði­gögn um vel­ferð og líðan barna hér á landi. Þar verður hægt að bera saman vel­ferð barna eftir lands­hlutum, jafn­vel milli sveitar­fé­laga. Gert er ráð fyrir því að mæla­borðið verði til­búið fyrir árs­lok.

Þetta er sín hliðin hvor á sama peningnum og mér fannst verða að vinna þetta sam­hliða.

Hann segir að önnur at­riði eins og hags­muna­mat og fjár­hags­greining verði að tala við vel­ferðar­hluta breytinganna.

„Þetta er bæði stefna og að­gerðar­á­ætlun. Það sem á að vinna á yfir­standandi ári er fjár­magn til fyrir og í ráðu­neytinu er búið að tryggja fjár­magn í fjár­mála­ætlun fyrir lang­stærstum hluta að­gerðanna. Við erum búin að búa til fjár­hags­ramma til að geta sinnt þessum verk­efnum næstu árin,“ segir Ás­mundur sem segir að stærstur hluti að­gerðanna sé innan hans ráðu­neytis en að ein­hver þeirra falli á for­sætis- eða mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið en þar sé einnig búið að tryggja fjár­magn.

Stór­auka þátt­töku barna

Í frum­vörpunum er gert ráð fyrir að stór­auka þátt­töku barna á öllum stigum á­kvarðana­töku. Spurður hvort hann telji sam­fé­lagið til­búið til að taka þátt í slíkum breytingum og leyfa börnum að taka þátt í auknum mæli segir Ás­mundur Einar að sam­fé­lagið hafi lík­lega aldrei verið eins til­búið.

„Mér fannst í upp­hafi kjör­tíma­bils mörgum finnast þetta ekki pólitískt skyn­sam­legt og að þetta væri ekki mál­efni sem pólitískt borgaði sig að setja á oddinn, eða skipti miklu máli. Mér finnst hafa orðið á­kveðin vakning undan­farin ár og ég held að sam­fé­lagið sé til­búið, en ég held að það þurfi að fylgja þessu fast eftir til að það verði hægt að stíga þessi risa­stóru skref til fulls. Ég vil trúa því að sam­fé­lagið sé til­búið í það,“ segir Ás­mundur Einar.

Börn eigi ekki máls­vara

Hann segir að þótt gott sam­starf hafi verið á þingi um málin og við önnur ráðu­neyti, þá sé mjög auð­velt að láta þessi mál hverfa aftur ofan í skúffu.

„Ef mál­efni verka­lýðs­fé­laganna eru látin niður í skúffu og ekki sinnt þá mætir for­ysta ASÍ og BSRB og það sama á við um mörg önnur mál­efni. Það eru víða öflugar hags­muna­hreyfingar sem halda stjórn­mála­mönnum við efnið, en því miður er það þannig að börn eru ekki komin á þann stað í okkar sam­fé­lagi að hafa það sterka rödd. En ég held að okkur muni takast að breyta því og þau geti veitt stjórn­mála­mönnum sama að­hald,“ segir Ás­mundur Einar.

Hann segir að hans sýn nái langt fram úr því að tefla fram sniðugum börnum á við­burðum eins og 17. júní heldur eigi þátt­takan að vera kerfis­bundin og stjórn­mála­menn, og aðrir stjórn­endur, komist ekki hjá því að hlusta á börnin.

„Við erum ekki komin þangað en við erum á leiðinni þangað. Ég held við séum að stíga fyrstu skrefin með stefnunni um barn­vænt Ís­land og ef við fylgjum henni þá komumst við á stað þar sem að raddir barna fá að heyrast. Ef við komumst þangað þá breytist sam­fé­lagið með. Ef við, full­orðna fólkið, myndum hlusta meira á börn þá held ég að for­gangs­röðun myndi breytast í sam­fé­laginu,“ segir hann.

Hann tekur dæmi frá Akur­eyri, sem var fyrsta sveitar­fé­lagið til að fá viður­kenningu sem barn­vænt sam­fé­lag, en þar kom það bæjar­yfir­völdum á ó­vart þegar þau byrjuðu að eiga sam­skipti við börn hversu skyn­sam­legar til­lögur og á­bendingar komu frá börnum.

„Það kom þeim skemmti­lega á ó­vart,“ segir Ás­mundur Einar sem segir að strax og vett­vangurinn hafi verið settur upp hafi sam­talið byrjað.

Hann segir að þetta tali allt saman og nefnir sem dæmi mæla­borðið, sem geri opin­berum aðilum kleift að halda utan um gögn og upp­lýsingar svo að sveitar­fé­lög og svæði geti horft inn á við og séð hvað þarf að laga, auk þess sem þá sé hægt að tala um mál­efni barna á grund­velli gagna, og vill stefna að því að Ís­land sé leiðandi í mál­efnum barna.

Ég held við séum að stíga fyrstu skrefin með stefnunni um barn­vænt Ís­land og ef við fylgjum henni þá komumst við á stað þar sem að raddir barna fá að heyrast

„Þetta er gríðar­lega fram­sækin stefna og að­gerða­á­ætlun og miðað við að það sé búið að tryggja fjár­magn þá gerum við ekki að­eins vel fyrir börn hér heldur skipum okkur í fremstu röð, ef ekki bara í fyrsta sæti í heiminum, þegar kemur að réttindum barna,“ segir hann.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta besta fjár­festingin til að auka hag­vöxt og draga úr kostnaði við fé­lags­lega kerfið og auka skatt­tekjur,“ segir Ás­mundur og bætir við:

„Það var alla vega það sem ég sá fyrir mér þegar ég bað Katrínu Jakobs­dóttur um leyfi til að verða barna­mála­ráð­herra. Að við gætum stigið skref á næstu árum til að tryggja að það sé hvergi betra að vera barn en á Ís­landi. Við erum ekki komin þangað en erum á réttri leið.“

Þetta er dag­lega þerapían mín, að fá að sinna þessum mála­flokki og ég finn sterkt hvernig þetta eykur vel­líðan og á­nægju

Tekur á­hættu í Reykja­vík

Ás­mundur er í fyrsta sinn að bjóða sig fram í Reykja­víkur­kjör­dæmi og sam­kvæmt niður­stöðum könnunar fyrr á þessu ári nær Fram­sóknar­flokkurinn ekki inn manni í Reykja­víkur­kjör­dæmunum tveimur, en þar leiðir hann lista.

„Ég á­kvað að gefa kost á mér í Reykja­vík og á­stæðan fyrir því er ein­föld: Pólitískir ráð­gjafar réðu mér frá því að ein­blína á börn því þau eru ekki með kosninga­rétt. En ég á­kvað að gefa kost á mér hér og leiða Reykja­víkur­kjör­dæmi norður, því flokkurinn þarf líka að geta selt það sem hann er að selja í þétt­býli. Það hefur hann ekki náð að gera hingað til. Ég legg þetta allt á borðið. Mig langar ekkert frekar en að fá að vera þing­maður í höfuð­borginni til að geta unnið á­fram að þessum málum og klárað þessi verk­efni. Þetta er það sem mig langar að gera, en ef ég kemst ekki að í Reykja­vík fer ég að starfa með ein­hverjum gras­rótar­sam­tökum að þessu. Það er ekkert flókið,“ segir Ás­mundur.

Hann segir mark­miðin skýr og að hann vilji vera á­fram í fé­lags- og barna­mála­ráðu­neytinu.

„Við byrjuðum á börnum því það er skyn­sam­legast að byrja þar. Það er stór hópur fólks í ís­lensku sam­fé­lagi sem er enn að glíma við á­föll frá því að þau voru börn. Ég hef haft mikinn á­huga á þyngsta endanum þar, fólki sem er í fangelsi og er langt leitt í vímu­efna­notkun, þar sér maður að það eru mjög margir ein­staklingar sem eru enn að glíma við á­föll frá því að þau voru börn. Mér finnst við þurfa að taka þann mála­flokk fastari tökum. Ég held líka að sú vinna sem við höfum farið í þegar kemur að mál­efnum barna geti nýst okkur í fleiri mála­flokkum og þar má sér­stak­lega horfa til eldra fólks þar sem við þurfum að fara í sam­bæri­lega vinnu,“ segir Ás­mundur.

„Mér finnst eins og vinnunni sé ekki lokið en pólitíkin er ó­út­reiknan­leg og það getur vel verið að það komi ein­hver annar í ráðu­neytið í septem­ber og ég vona að sá aðili hafi það sem þarf til að glíma við þessi mál af festu,“ segir Ás­mundur.