Alls eru 329,83 kílómetrar af stofnvegum á Íslandi án bundins slitlags. Heildarvegalengdin er 4.432,34 kílómetrar og eru malarvegir því rúmlega 7,4 prósent. Inni í þessari tölu eru ekki stofnvegir á hálendinu, sem telja 479,61 kílómetra.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn flokksbróður síns, Helga Héðinssonar varaþingmanns Framsóknarflokksins.
Stofnvegir eru hluti af grunnkerfi samgangna.
Lengsti ómalbikaði vegurinn er Hlíðarvegur á Austurlandi, sem nær frá Vopnafirði langleiðina suður að Egilsstöðum. Þar eru 57,62 kílómetrar af 71,2 malarvegur.
Á samgönguáætlun er áætlað að malbika 159 kílómetra kafla á sjö vegum til ársins 2034.