Malaríulyfið Hydroxychloroquine, sem hefur verið notað í meðferðarskyni gegn kórónaveirusjúkdómnum COVID-19 á smitsjúkdómadeild Landspítalans og víða um allan heim, hefur ekki sýnt ávinning umfram hefðbundna umönnun.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá Bandaríkjunum. Búið er að senda greinina á hið virta vísindatímarit New England Journal of Medicine í von um birtingu. Ekki er búið að ritrýna greinina og eru niðurstöðurnar byggðar á litlu úrtaki en 368 fyrrverandi hermenn með COVID-19 tóku þátt.

Stór hluti þátttakenda létu lífið vegna sjúkdómsins. Af þeim sem fengu malaríulyfið létust um 28 prósent. Af þeim sem fengu umönnun létust 11 prósent. Af þeim sem fengu malaríulyfið og sýklalyfið Azithromycin létust 22 prósent.

Rannsakendur skráðu ekki aukaverkanir en sögðu eitthvað benda til þess að malaríulyfið Hydroxychloroquine gæti skaðað einhver líffæri og gæti hraðað hjartslætti.

Lyfjafyrirtækið Alvogen pantaði í mars 50 þúsund skammta af Hydroxychloroquine til að gefa Landspítalanum. Lyfin komu til landsins í byrjun apríl.