Verkfræðistofan Verkís vinnur nú að lagningu um eins og hálfs metra malarfargs ofan á ljósleiðara sem liggur á 80 sentimetra dýpi meðfram Suðurstrandarvegi til að verja hann hita.

Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, segir ljósleiðarans varinn í samræmi við fjarskiptastöðvar, en auk malarfargsins verður einangrun sett niður á völdum stöðum til að verja ljósleiðarann fyrir þúsund gráða heitu hrauninu.

Hraunið flæðir á miklum hraða úr Geldingadölum ofan í Nátthaga og þaðan í áttina að Suðurstrandarvegi til sjávar.

Helstu verkefni næstu daga snúa að styrkingu leiðigarðsins við suðvesturhluta Geldingadala í þeim tilgangi að bægja hraunrennsli frá Nátthagakrika. Þegar blaðamaður Fréttablaðsins lagði leið sína að gosstöðvunum fyrir helgi voru aðeins ein jarðýta og ein grafa notaðar til að reisa hinn mikla varnargarð. Aðspurður segist Ari ekki hafa fengið aðra ýtu upp á hæðina.

„Við erum enn að vinna með eina ýtu. Við vinnum þá bara lengri daga við að hækka og styrkja vegginn,“ segir Ari.

Lögreglan á Suðurnesjum gaf í gær út tilkynningu þar sem ferðamenn voru varaðir við hættum í tengslum við gasmengun. Þar kemur fram að mengunin sé ófyrirsjáanleg sökum veðurs og lögreglan geti án fyrirvara lokað fyrir alla umferð að gosstöðvunum.

„Mér þykir sennilegt að þetta renni yfir á næstu dögum. Eins og þetta stefndi í fyrir helgi þá hefði allt eins verið búist við að þetta hefði verið komið út úr Nátthaganum í dag,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðfræðingur hjá Eflu, sem var við gosstöðvarnar í gær.

Jón Haukur Steingrímson jarðfræðingur hjá Eflu.

„Þetta var á mjög jöfnu skriði en nú hefur tungan syðst í Nátthaganum ekkert hreyfst síðan á laugardagsmorgun,“ segir Jón Haukur. „Hraunið hefur verið að þykkna innst í Nátthaganum þar sem það kemur niður og rennur aðeins í lokuðum rásum en heldur minna en fyrir helgi.“

Jón Haukur segir að eins og staðan sé núna stefni ekki í að hraunið renni í vesturátt í átt að Svartsengi og Grindavík.

„Leiðigarðurinn við brúnina í framhaldi af Stórhól hindrar það,“ segir hann. „Ef það kemur mikið áhlaup á hann gæti það auðvitað gerst, en á meðan hraunið rennur meðfram leiðigarðinum og niður í Nátthaga þá gæti það tekið töluverðan tíma.“

Gro Birkefeldt Moller Pedersen, jarðfræðingur við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, vinnur að gerð nýs hraunflæðilíkans, sem verður birt á frettabladid.is, vef Fréttablaðsins, í dag.