„Ég veit ekki hvort það er kostur eða galli að hafa byrjað svona seint að mála, en ég mála fyrst og fremst af svona miklum þrótti vegna þess að ég átta mig vel á að það er dálítið liðið á ævina og tími okkar er takmarkaður,“ segir Ragnar Hólm, verkefnastjóri kynningarmála hjá Akureyrarbæ.

Ragnar stendur á sextugu og hefur komið eins og stormsveipur inn í myndlistina síðustu ár. Hann málar og málar, jafnt með olíu- og vatnslitum, líkt og enginn sé morgundagurinn. Velgengnin hefur verið slík að hann selur iðulega hverja einustu mynd á örskömmum tíma ef hann heldur sýningu.

Ragnar sótti um inngöngu í Myndlista- og handíðaskólann sem ungur maður. Honum var hafnað um inngöngu þar sem hann þótti ekki draga nógu vel upp þvotta­klemmu. Hann lærði heimspeki og félagsfræði og vann lengi að markaðsmálum hjá Stöð 2. Svo flutti hann aftur norður í sinn gamla heimabæ, Akureyri.

Vatnslitamyndir Ragnars eru lágstemmdar en hann er „coloristi“ er kemur að olíumálverkinu. Hann segir erfitt að meta hvort það hafi orðið honum happ að vera ekki skólagenginn í myndlist.

„Maður hefur kannski ræktað einhverjar sérviskur sem annars hefðu verið skólaðar úr manni.“

Margs konar myndlistarmenntun hefur Ragnar þó sótt sér út fyrir landsteinana seinni ár. Hann segist einnig seint fá fullþakkað Guðmundi Ármann myndlistarmanni fyrir ýmsa ráðgjöf og liðveislu.

„Ég er algjörlega tvískiptur,“ segir Ragnar þegar spurt er hvers konar listamaður hann sé. „Vatnslitirnir eru fyrst og fremst landslag, það er rosalega róandi að láta vatnið dansa eftir myndfletinum. En ef vatnslitun er ballett þá er það að mála með olíu meira eins og box.“

Spurður hvort hrós og hvatning skipti hann máli, svarar Ragnar:

„Já, mjög miklu máli, ég geng fyrir hóli og held það eigi við um alla menn. Eru ekki bara sumir feimnir við að viðurkenna það?“

Ragnar Hólm á orðið verk til sýnis á alþjóðlegum vettvangi og það er hugvekjandi staðreynd að krafturinn í honum eigi sér uppsprettu í vissunni um hverfulleika lífsins.

„Ég gæti greinst með ólæknandi sjúkdóm á morgun. Þegar kallið kemur langar mig ekki að vita af mörgum ókláruðum myndum.“