„Þegar ég er að mála er eini tíminn í lífi mínu þar sem ég er algerlega í núvitund“ segir Saga en hún hefur notað málaralistina sem einskonar hugleiðslu í mörg ár. Með list sinni kannar Saga áhrif umhverfisins á mannlegar tilfinningar. „Það er rosalega áhugavert fyrir mig að horfa á málverkin mín og sjá ólík tímabil í lífi mínu.“

Þekktur ljósmyndari um allan heim

„Fólk þekkir mig helst sem ljósmyndara en ég er búin að ver að mála í alveg 7 ár“ segir Saga. Ljósmyndir hennar hafa birst í fjölda tímarita um allan heim og hefur hún verið í samstarfi við fólk og fyrirtæki á borð við Björk, Apple, Nike, M.I.A og fleiri.

Saga hefur áður sýnt ljósmyndir sínar og önnur verk en þetta er fyrsta málverkasýning hennar.

Var með sturlaðan kvíða

„Ég byrjaði að mála þegar ég bjó í London og var með alveg sturlaðan kvíða“ segir Saga en hún lýsir því að listin hafi hjálpað henni að ná jafnvægi. „Ég fann einhverja leið fyrir mig til að ná stjórn á óreiðunni í hausnum á mér, einu skiptin sem ég hef stjórn á þessari óreiðu er þegar ég er að mála.“

Saga skapaði sér griðastað með því að fylla herbergið sitt í London af málverkum. „Mér finnst alltaf rosa gott að sjá þau svona saman á einum stað, það veitir mér öryggi og ánægju.“

Hún segir mikla útrás vera fólgna í því að mála eftir eðlishvöt sinni en hún vinnur frá augnabliki til augnabliks í ferli sínu. „Ég get aldrei endurgert málverk af því að það er aldrei sama mómentið.“

Saga málar eftir augnablikinu og gerir aldrei sama málverkið tvisvar.
Mynd/Saga Sig

Umhverfið ræður listinni

„Þetta kemur bara ósjálfrátt“ segir Saga en málaraferli hennar er beintengt umhverfi hennar og líðan. Hún segir það vera auðvelt að sjá hvaða tilfinningar hún var að ganga í gegnum þegar hún var að vinna að verkinu. „Ég sé það sérstaklega á litunum og formunum hvaða upplifun var í gangi hjá mér.“

Hún segist aldrei hafa fundið þörf fyrir að halda sýningu eða selja verkin, „Vegna þess að ég er fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig.“ Hún segir utanaðkomandi áhuga á verkunum hafa hvatt hana áfram en Saga hefur selt þó nokkur verk í gegnum netið. „Fólk hefur mikið verið að spyrja þannig mér fannst vera komin tími á það að halda sýningu.“

Málverkin sem sýnd verða á föstudaginn eru abstrakt blanda af litum og formum. „Þetta er rosalega mikið beint frá hjartanu“

Ætlar alltaf að gera allskonar

Saga segist ekki vilja skilgreina sig sem einn hlut eins og ljósmyndara eða málara. „Ég er búin að sætta mig við að ég verði bara alltaf að vera að gera allskonar.“ Hún segir aukið frelsi hafa fylgt síðustu árum og segir að það henti henni ótrúlega vel. „Ég er listakona og ég vinn við að taka ljósmyndir og svo mála og ég vinn við að gera bækur, núna má maður vera það sem maður er að gera hverja stundina en það var ekki þannig fyrir 10 árum.“

„Ég sé það sérstaklega á litunum og formunum hvaða upplifun var í gangi hjá mér“ segir Saga um verk sín.
Mynd/Saga Sig