Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að mál vespugengis sem grunað er að hafa ráðist á ungmenni í Digranesi í gærkvöldi sé á sínu borði.

„Þetta er bara í rannsókn hjá okkur og við þurfum að athuga með þessa aðila sem er talað um,“ segir Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Meintir gerendur verða kallaðir til skýrslutöku.

Þóra segir að það verði skoðað hvort myndavélar séu á skólalóðinni. „Það verður allt skoðað. Hvort það séu til myndbandsupptökur af atvikinu. Ég þekki ekki alveg hvort það séu myndavélar við skólalóðina. Það er misjafnt í þessum skólum hvort það séu myndavélar og svo er spurning hvernig þær snúa. Snúa þær undan þessum vettvangi þar sem þessi árás á að hafa átt sér stað.“

Flúðu á vespum

Í gærkvöldi birtist færsla í íbúahóp á Facebook þar sem móðir lýsti hvað átti sér stað.

„Nú í kvöld var sonur okkur að spila körfubolta á skólalóð Digranes megin kl.20:30. Þeir voru allir vinir að spila. Þeir spiluðu þangað til einhver annar kom og hringdi í vini sína sem komu á vespum. Svo voru slagsmál. Sonur okkar var kýldur í andlitið en vinur hans fékk miklu meira, en það voru þrír sem réðust á hann,“ segir í færslunni.

Faðir drengsins sá í glugganum heima að eitthvað var gerast. „Hann hljóp út en þeir flúðu á vespum,“ segir móðirin. „Þessir gaurar voru með hamra og skiptilykla. Svo virðist sem einhver hafi tekið þetta upp á myndband. Þeir voru margir þar en engum datt í hug að hringja í 112.“

Þóra vildi ekki staðfesta hvort þeir hafi verið hamra og skiptilykla.

Foreldri 13 ára drengs sagði í athugasemd að svipað atvik hafi átt sér stað við Smáraskóla fyrir rúmum mánuði. „Sonur okkar lenti í svipuðu gengi á körfuboltavellinum niðri í Smáraskóla eitt kvöldið fyrir rúmum mánuði. Þá kom vespugengi og fór að hóta þeim öllu illu og ætluðu í slagsmál,“ segir foreldrið.